Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 38
LjÓS Í MYRKRI
37
Hollywood, og raunar einkennist áratugurinn af meiri fjölbreytni en nokkru
sinni í sögu íslenskra kvikmynda. Ber fyrst að nefna áframhaldandi vel-
gengni glæpamyndarinnar, líkt og Borgríki (Ólafur jóhannesson, 2011),
Svartur á leik (Óskar Axelsson, 2012) og Eiðurinn (Baltasar Kormákur, 2016)
eru til vitnis um auk sjónvarpsraða á borð við Ófærð (ýmsir, 2015-) og Stellu
Blómkvist (Óskar Axelsson, 2017-).36 Á meðan Ólafur jóhannesson og Óskar
Axelsson sóttu mjög í brunn erlendra glæpamyndahefða gerði Baltasar gott
betur með því að leikstýra bókstaflega tveimur glæpamyndum í Holly-
wood, Contraband (2010), sem var endurgerð á Reykjavík Rotterdam, og 2
Guns (2012), við ágætar viðtökur vestra.37 Auk glæpamynda gerði Baltasar
hrakfaramyndir að sínu höfundarverki bæði heima og ytra, samanber Djúpið
(2012), Everest (2015) og Adrift (2018). Annars konar greinamyndir að hætti
Hollywood hafa einnig litið dagsins ljós: hryllingsmyndirnar Frost (Reynir
Lyngdal, 2012), Rökkur (Erlingur Óttar Thoroddsen, 2017) og Ég man þig
(Óskar Axelsson, 2017) og teiknimyndirnar Hetjur Valhallar: Þór (Óskar
jónasson, Toby Genkel og Gunnar Karlsson, 2011) og Lói: Þú flýgur aldrei
einn (Árni Ólafur Ásgeirsson, 2018). Auk dramatískra mynda Baldvins Zop-
honíassonar Vonarstræti (2014) og Lof mér að falla (2018) koma vinsælustu
myndir áratugarins úr hópa þessara greinamynda: Svartur á leik, Djúpið,
Eiðurinn, Ég man þig auk fjögurra mynda um Algjöran Sveppa (2010-14) eftir
Braga Þór Hinriksson sem einnig leikstýrði barnamyndinni vinsælu Víti í
Vestmannaeyjum (2018).38
Líkt og greina má af leikstjórum umræddra mynda áttu sér stað skörp kyn-
slóðaskipti á áratugnum en einu myndir leikstjóra sem gert höfðu mynd á
36 Uppgang íslensku glæpamyndarinnar hef ég tekið til umfjöllunar meðal annars í
greininni „‘A Typical Icelandic Murder?’ The ‘Criminal’ Adaptation of Jar City“,
Journal of Scandinavian Cinema 1/2011, bls. 37–49, og bókakaflanum „Crime up
north“, Nordic Genre Film, ritstj. Pietari Kååpå og Tommy Gustafsson, Edinburgh:
University of Edinburgh Press, 2015, bls. 61–75.
37 Í greininni „The Transnational Remake: Crossing borders with Contraband“ bendi
ég á að það sé ákveðin einföldun að skilgreina Contraband sem endurgerð á Reykja-
vík Rotterdam þar sem íslenska myndin sjálf er endurvinnsla á kunnuglegum banda-
rískum hefðum og viðmiðum. Journal of Scandinavian Cinema 2/2014, bls. 93–97.
38 Samtök myndrétthafa á Íslandi geyma upplýsingar um aðsókn á einstaka íslenskar
myndir, auk þess sem Hagstofan tekur saman árlega upplýsingar um kvikmynda-
áhorf hérlendis. Ásgrímur Sverrisson hefur með aðstoð þessara upplýsinga bent
á að þrátt fyrir nokkrar sveiflur megi greina almennt aukna aðsókn undanfarin
ár samfara auknum fjölda frumsýndra mynda. „Íslenskum bíómyndum fjölgar og
aðsókn eykst“, Klapptré, 13. janúar 2019, sótt 30. apríl 2019 af https://klapptre.
is/2019/01/13/greining-islenskum-biomyndum-fjolgar-og-adsokn-eykst/. Sjá enn-
fremur reglubundna umfjöllun Ásgríms um aðsóknartölur á vefsíðunni klapptre.is.