Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Síða 105
BjöRN ÞóR VilHjálMSSoN
104
að raunverulegar kvikmyndir hafi skaðvænlegust áhrif. Eru ofbeldismyndir
þessar stundum mjög nákvæmar og hefur stundum verið álitamál hvort morð
hafi jafnvel ekki verið framin fyrir framan kvikmyndatökuvélina.“73 Þarna er
jafnframt drepið á málefni sem mikla athygli hafði hlotið í umræðunni á Ís-
landi, að dæmi væru um að ofbeldi í ákveðnum myndum væri ekki sviðsett
heldur framkvæmt í raun og veru. Enda þótt sögusagnir um slíkt eigi sér
nokkra sögu beindist athyglin hér á landi fyrst og fremst að einni tiltekinni
kvikmynd, ítölsku innyflamyndinni Cannibal Holocaust eftir Ruggero Deo-
dato.74 Þegar blaðamaður DV minnist á „morð“ sem framið er „fyrir framan
kvikmyndatökuvélina“ er hann sennilega að vísa til hennar.
óhætt er að fullyrða að engin „ofbeldismynd“ hafi verið jafn þekkt á
Íslandi á níunda áratug síðustu aldar og Cannibal Holocaust. Að sama skapi
er óvíst hvort flökkusagan um manndráp framin fyrir myndavélar Deodato
hafi nokkurs staðar fest jafn djúpar rætur og hér, og þannig varð það líka
Cannibal Holocaust sem umfram allt annað réttlætti bannlistann og skýrði
nauðsyn lagasetningarinnar. Í umræðum um ofbeldismyndabannið á Alþingi
vísuðu þingmenn til hennar á víxl í talsverðu uppnámi; af hennar völdum
var árni gunnarsson nær búinn að missa trúna á „siðferði homo sapiens“ og
tilvísun til óhæfuverka myndarinnar náði meira að segja inn í sjálfar athuga-
semdirnar við lagafrumvarpið.75 Þá greip Níels árni lund mannætumynd-
ina gjarnan á lofti þegar rætt var um störf Kvikmyndaeftirlitsins og hug-
myndin um að Cannibal Holocaust sýndi raunveruleg morð lifði í íslenskum
fjölmiðlum fram á tíunda áratuginn.76 Þegar hugað er að stærð myndarinnar
í íslenskri menningarumræðu verður hins vegar ekki hjá því komist að beina
sjónum sérstaklega að þætti Þjóðviljans, en fjölmiðill sá lagði út í eiginlega
73 „S.A.“, „listrænt ofbeldi má sýna ungmennum“, DV, 21. júlí, 1983, bls. 6.
74 Sögusagnir um kvikmyndir sem sýndu raunveruleg morð höfðu skotið upp kollinum
annað slagið en urðu fyrst verulega áberandi á áttunda áratugnum. um uppruna og
eðli þessara flökkusagna má lesa í Stephen Milligen, „The Bloodiest Thing That Ever
Happened in Front of a Camera“: Conservative Politics, Porno Chic and Snuff, Truro:
Headpress, 2015, einkum bls. 149–201.
75 árni gunnarsson, „158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum – Dálkur 2519 í B-deild
Alþingistíðinda (2337)“, Althingi.is, 4. mars 1983, sótt 13. júni 2019 af https://www.
althingi.is/altext/raeda/?lthing=105&rnr=2337.
76 árið 1992 greindi Tíminn frá því að lögreglan í Bretlandi hefði leyst upp neðanjarð-
arhring er sýslaði með ýmiss konar myndbönd af hrikalegasta tagi, þ. á m. „myndir
sem sýna raunveruleg morð og misþyrmingar“ – og hvaða titill ætli hafi ekki komið
þarna upp úr dúrnum nema einmitt Cannibal Holocaust. „Sóðaklám með raunveru-
legum morðum“, Tíminn, 8. maí 1992, bls. 6.