Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Síða 181
BjöRN ÞóR VIlHjÁlmSSoN oG KjARTAN mÁR ómARSSoN
180
einn af stofntextum fræðasviðsins um þjóðarbíó og hefur skipað sér í röð
sígildra fræðatexta innan kvikmyndafræðinnar.15 Þá hefur Higson einnig
sinnt rannsóknum á evrópska bíóinu og arfleifðarmyndinni (e. heritage film),
en á síðustu árum hefur hann snúið sér í auknum mæli að rannsóknum á
sviði mjúks valds (e. soft power), ímyndaþróunar þjóða, stefnumála í skapandi
iðngreinum, og dreifingarkostum og viðtökum kvikmynda (meginstraums-
mynda jafnt og sérhæfðari listamynda) á stafrænum tímum.
Ef litið er aftur til greinar Higsons frá 1989, „Hugmyndin um þjóðar-
bíó“, og henni stillt upp andspænis greininni sem hér er þýdd, „Takmark-
andi ímyndunarafl þjóðarbíósins“, sem út kom röskum áratug síðar, gæti
fljótvirkur samanburður á titlunum einum og sér dugað til að kveikja grun-
semdir í brjósti lesanda um að viðhorfsbreyting hafi átt sér stað hjá höf-
undi.16 Sú er líka raunin en áður en hugað er að þróun hugmynda Higsons
um þjóðarbíóið er rétt að gefa ákveðnum grunnforsendum gaum.
Þjóðarbíóhugtakið má nálgast á ýmsa vegu. Hægt er að ímynda sér að
kvikmyndir sem Íslendingar taka umtalsverðan þátt í að gera, nú eða ef einn
tiltekinn Íslendingur er í lykilstöðu við gerð kvikmyndar, er leikstjóri til
dæmis, og eru fjármagnaðar að minnsta kosti að hluta úr íslenskum sjóð-
um, taki sér sæti vandræðalaust undir skjólsælu þaki íslenska þjóðarbíósins.
Í flestum tilvikum væri jafnvel hægt að gefa sér að talað yrði á íslensku í
myndinni og sögusviðið væri Ísland eða tengdist þjóðinni með einhverjum
hætti – en ekki þyrfti að gera kröfu um þetta. Þjóðarbíó í þessum skilningi
er samansafn kvikmynda sem deila áðurnefndum sérkennum og með tíð og
tíma verður það myndugra, verk bætast sífellt í sarpinn, hefð, saga og stig-
veldi verða til. Af þeim sökum þyrfti heldur ekki að koma á óvart ef jafnan
væri meiri höfðingjabragur á þjóðarbíóum sem eiga sér „langa“ kvikmynda-
sögu en hinum, líkt og Íslandi, sem hófust handa við kvikmyndagerð síðar,
og mætti hér nefna Bandaríkin, Frakkland, Bretland og japan sem dæmi
um þjóðarbíó sem rekja sögu sína aftur til fyrstu ára miðilsins. En í sjálfu
sér lýtur þjóðarbíóið ekki rökvísi núllsummuaðferðarinnar, það er eitthvað
sem þjóðir eignast sjálfkrafa, að því gefnu að efnahagslegar forsendur séu
fyrir hendi sem leyfa kvikmyndagerð og að ráðist sé í hana innan landamæra
þjóðríkisins.
15 Andrew D. Higson, „The Concept of National Cinema“, Screen, 30:4 (haust) 1989,
bls. 36-46.
16 „The limiting Imagination of National Cinema“ kom fyrst út í greinasafninu Ci-
nema and Nation, ritstj. mette Hjort og Scott macKenzie, london og New York:
Routledge, 2000, bls. 63-74.