Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Side 230
ÁHRIF SIðBóTARInnAR Á ÍSLAnDI
229
Torvelt er að meta áhrif Lúthers á stöðu íslenskra kvenna sérstaklega. Þó
er ljóst að strax og lúthersk kristni var tekin að móta menningu og hugarfar
landsmanna urðu hér til ýmiss konar textar sem ætlað var að móta hug-
myndir fólks um kynferði, kynhlutverk og sjálfsmynd í anda siðbótarguð-
fræðinnar. Því hefur snemma gætt viðleitni til að móta aðstæður hér eftir
hugmyndum Lúthers og samherja hans. Má í þessu sambandi nefna dyggða-
spegla, heilræða- og siðakvæði, auk tækifæriskvæða m.a. erfiljóða. Sumt af
þessu efni var frumsamið en annað byggt á erlendum ritum sem snúið var í
ljóðform. Vissulega hafa textar af þessu tagi verið bundir við ákveðinn þjóð-
félagshóp úr efri lögum samfélagsins en hafa þó ugglaust gegnt mikilvægu
hlutverki við að festa lútherskar samfélagshugmyndir í sessi.87
Margt í kenningum Lúthers var til þess fallið að breyta stöðu kvenna. Ber
þar ekki síst að nefna köllunarguðfræði hans en í henni fólst afneitun á að
lífsform klerka og klausturfólks væri æðra eða göfugra en annarra. Hlutverk
þeirra sem stunduðu veraldleg störf öðluðust jafnframt aukið gildi væru þau
rækt af trúmennsku. Þetta hafði svo ýmsar praktískar afleiðingar. Klausturlíf
lagðist af í lúthersku kirkjunni, margt klausturfólk og prestar gekk í hjóna-
band og nýr þjóðfélagshópur, lúthersku prestskonurnar, maddömurnar, kom
fram. gegndu margar prestskonur mikilvægu hlutverki í heimabyggð sem
húsfreyjur á heimili sem vera átti til fyrirmyndar á öllum sviðum auk þess
sem þær gegndu oft umönnunar- og fræðsluhlutverkum langt umfram aðrar
húsmæður.88
Við lokun klaustranna lagðist af möguleiki kvenna til viðurkennds lífs-
forms án hjónabands, barneigna og uppeldis. Hér á landi stóð hann þó
ekki til boða nema örfáum konum af hverri kynslóð og þá einkum þeim
sem efnameiri voru. Hér störfuðu aðeins tvö nunnuklaustur. Torvelt er að
áætla fjölda nunna í þeim en um siðaskipti eða 1542 er vitað um 7 nunnur í
Kirkjubæ. Með klaustrunum hurfu líka tvær helstu virðingarstöðurnar sem
stóðu konum opnar en abbadísir fóru m.a. með yfirstjórn klaustureignanna
þó með aðstoð ráðsmanna. Vald þeirra var vissulega takmarkaðra en ábóta.
Samt sem áður má jafna stöðu þeirra við höfðingja.89 Einhverjar konur sem
87 Þórunn Sigurðardóttir, „„Dyggðafull kona er ein eðla gáfa““, bls. 337–366.
88 guðrún Ása grímsdóttir, „um íslensku prestskonuna á fyrri öldum“, Konur og
kristsmenn: Þættir úr kristnisögu Íslands, ritstj. Inga Huld Hákonardóttir, Reykjavík:
Háskólaútgáfan, 1996, bls. 215–247, hér bls. 227–246.
89 gunnar F. guðmundsson, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni á Íslandi II, ritstj.
Hjalti Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 212. Inga Huld Hákonardóttir, „Í
nunnuklaustri — Kirkjubær og Reynistaður“, Íslenskt samfélag og Rómakirkja, Kristni
á Íslandi II, ritstj. Hjalti Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 225–229. Vilborg