Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Síða 86
„TAuMlAuST BlóðBAð áN liSTRæNS TilgANgS“
85
aður. Ef litið er til Bandaríkjanna má t.d. nefna að þótt forræði útvalinna
fyrirtækja yfir kvikmyndaframleiðslu hafi ávallt mótað iðnaðinn þar í landi
tók eftirspurn eftir kvikmyndum heildarframboði stóru Hollywood kvik-
myndaveranna ávallt fram og minni fyrirtæki sem sóttu á önnur mið höfðu
jafnan verið starfrækt. Samkeppni við MgM eða Paramount á þeirra eigin
forsendum var auðvitað dauðadæmd – ómögulegt var fyrir smærri fyrirtæki
jafnt og kvikmyndaframleiðslu annarra þjóðlanda, að jafna íburð, stjörnu-
fans og tæknifágun myndanna sem komu frá risunum í Hollywood. Stóru
kvikmyndafyrirtækjunum var hins vegar annt um ímynd sína og orðspor,
þau leituðust við að efla virðingu kvikmynda í samfélaginu, og voru því
lastvör. Að vísu ber að hafa í huga að gríðarstrangri ritskoðunarreglugerð
var framfylgt af hörku í bandarískri kvikmyndagerð áratugum saman, sem
þýddi að allir voru lastvarir – upp að ákveðnu marki.44 Svigrúm var engu að
síður til staðar fyrir framleiðendur sem ekki voru jafn kirfilega bundnir á
klafa jákvæðrar ímyndasköpunar, siðprýði og ritskoðunar. og svigrúmið var
sannarlega nýtt, fjöldi sjálfstæðra framleiðenda og minni fyrirtækja tóku að
„braska“ með viðfangsefni sem kvikmyndaverin litu ekki við (kvennafang-
elsismyndir, fíkniefnamyndir, myndir um hvítt þrælahald, hryllingsmyndir,
og myndir um öll möguleg kynferðisleg efni) auk þess að leyfa sér með tím-
anum sífellt bersýnni (e. explicit) sviðsetningar.45 Myndir þessar voru aldrei
teknar til sýninga í kvikmyndahúsum sem voru í eigu kvikmyndaveranna, né
heldur í stöndugri „sjálfstæðum“ kvikmyndahúsakeðjum. Þær voru sýndar í
ódýrum og oft illa viðhöldnum bíóum í stórborgunum, bíóum í alþýðu– og
verkamannahverfum og öðrum markaðslegum jaðarsvæðum, líkt og dreif-
býlinu. Síðar tóku bílabíóin upp keflið og braskmyndir af ýmsum toga urðu
uppistaðan í sýningarhaldi þeirra.46
44 Af því mikla efni sem skrifað hefur verið um bandaríska stúdíókerfið er ástæða til að
mæla sérstaklega með tveimur ritum. Annars vegar Douglas gomery, The Hollywood
Studio System. A History, london: BFi, 2005, og svo hins vegar Thomas Schatz, The
Genius of the System: Hollywood Filmmaking in the Studio Era, Minneapolis: The uni-
versity of Minnesota Press, 2010.
45 Í þessari grein er enska orðið explicit þýtt sem „bersýnn“ en þýðing þessi á rætur að
rekja til Kristínar Svövu Tómasdóttur og bókar hennar Stund klámsins. Þar stingur
hún upp á þessari þýðingu til að leysa af hólmi orð á borð við „opinskátt“ „gróft“ og
„djarft“, sem eru í senn óskýr og gildishlaðin.
46 Eitt rit hefur umfram önnur fest sig í sessi sem sígilt þegar að sögu braskmynda
kemur en það er bók Eric Schaefer, „Bold! Daring! Shocking! True!“: A History of
Exploitation Films, 1919–1959, Durham og london: Duke university Press, 1999.