Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 262
„ÞANNIG ER SAGA OKKAR“
261
hversu persónubundnar sögulegar heimildir eru. Þess vegna leyfir hann sér
líka að láta huglægni sína leika lausum hala: „Þegar Jörundur hélt dansleiki
gættu lífverðirnir dyranna og var Jens [íslenskur strákur] á meðal þeirra þó
að ekki finni ég hann í skránni yfir lífverðina sem er líklega af því að nafni
hans hefur verið breytt í heimild minni“ (197). Slík meðferð á heimildum er
í anda svonefndrar „apókrýfrar sögu“ (e. apocryphal history) eða „póstmód-
ernískrar endurskoðandi sögulegrar skáldsögu“ (e. postmodernist revisionist
historical novel), þar sem endurskoðaðar og endurtúlkaðar eru sögulegar
heimildir sem og hefðbundin viðmið í sögulegum skáldskap, með því að
bæta ýmist við því sem hefur glatast eða verið þaggað niður í sögulegum
heimildum ellegar leysir hina opinberu sögu af hólmi.43
Á stöku stað sýnir sögumaður líka að hann getur þaggað niður í vissum
röddum fortíðarinnar, eins og sagnfræðingar geta og hafa gert:44 „Ævisagan
og Eldritið, það eru aðalbækurnar eftir séra Jón. Við styðjumst við þær en
sneiðum hjá ýmsu sem ekki skiptir máli í okkar sögu og bætum við öðru
sem kemur annars staðar að og lögum að okkar sögu“ (23). Valdabarátta um
hina gildu og viðurkenndu orðræðu, þ.e. hvaða og hvers sögur eru sagðar,45
birtist einnig í skáldsögunni þegar bylting Jörgens misheppnast og hann
er kærður af ýmsu fólki. Bretinn Alexander Jones, skipstjóri á Talbot, sem
handtekur Jörgen lætur marga skrifa skýrslur til að skýra frá byltingunni,
en „einn var sá sem Alexander Jones vildi ekki fá neina skýrslu frá. Það var
Jörgen Jörgensen“ (209), segir sögumaður, en „Jörgen Jörgensen átti líka
eftir að hrekja orð skipstjórans lið fyrir lið í bók sinni“ (213). Því má segja
að frásagnaraðferðin í Hundadögum sé í vissum skilningi eftirlíking, afhjúpun
og paródía á því ferli sem býr að baki ritun sagnfræðilegra heimilda og rita,
sem séu í eðli sínu menningarleg hugarsmíð og hugmyndafræðileg sköpun
– líkt og skáldskapur.
Ávörpin og metafrásagnirnar trufla hið slétta og fellda frásagnarflæði og
gera lesendur meðvitaðri um að þeir eru að hlusta á sögu sem sögumaðurinn
segir og mótar, svo að ónefnt sé að skáldsagan einkennist af samskipan eða
hliðskipan (e. parataxis),46 þ.e.a.s. að sögur af persónum frá ólíkum tíma og
rúmi séu klipptar út, límdar saman og settar saman inn í sama rými á afar
frjálsan hátt af sögumanni. Þessar frásagnaraðferðir raska hinum línulega
orsakaskilningi á sögu og afhjúpa jafnframt hið hugsmíðaða eðli frásagnar
43 Brian McHale, Postmodernist Fiction, bls. 90.
44 Sjá Linda Hutcheon, A Poetics of Postmodernism, bls. 107.
45 Sama rit, bls. 123.
46 Sjá Amy Elias, Sublime Desire, bls. 122–136.