Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 9
BJöRN ÞóR VILHJÁLmSSON
8
honum vaxið fiskur um hrygg jafnt og þétt.15 Í honum, líkt og Eurimages
og Evrópusamningnum, er forsenda styrkjaumsókna þverþjóðlegt samstarf
og ætla má að það ákvæði hafi haft umtalsverð áhrif á þróun íslenskrar kvik-
myndaframleiðslu.16
Stafræna byltingin
Fleira spilar þó inn í vaxtarskeið íslenskrar kvikmyndagerðar eftir árþús-
undamótin og mikilvægt er að hafa í huga samverkandi áhrif ólíkra sam-
félagsþátta og sviða. Á sama tímaskeiði og fjárframlög aukast til íslenskrar
kvikmyndagerðar og stofnanaumhverfið tekur miklum breytingum gefur
einnig að líta einhver róttækustu umbrot í sögu kvikmyndalistarinnar, og á
það við um kvikmyndagerð á heimsvísu. Það er uppgangur stafrænnar tækni
sem hér um ræðir, en þróun hennar á sér stað í þremur stigum. Fyrst er það
innleiðsla stafrænnar tækni í hljóðtækni kvikmynda og eftirvinnslu á tíunda
áratug síðustu aldar. Fyrsta umfangsmikla kvikmyndin er svo alfarið tekin
upp með stafrænni tækni árið 2002, Star Wars: Episode II – Attack of the Clones
eftir George Lucas. Eftir að ísinn hefur verið brotinn færist stafræn gerð
kvikmynda mjög í aukana, þar til hún verður ríkjandi á innan við áratug.
Þriðja stigið eru svo stafrænar sýningar í kvikmyndahúsum.17 Stundum er
miðað við árið 2014 í síðastnefnda samhenginu, en þá gaf eitt af sögufrægu
kvikmyndaverunum í Hollywood, Paramount, út yfirlýsingu um að það væri
hætt að dreifa kvikmyndum á filmum.18 Kvikmyndasýningar af filmu voru
svo lagðar af í Reykjavík á svipuðu tímabili. Umbreytingarnar sem stafræna
byltingin hefur haft í för með sér í hérlendri kvikmyndagerð eru jafnframt
stórtækar. Framleiðslukostnaður stórlækkar, eftirvinnsla kvikmynda færist
mun síður úr landi og dreifing þeirra tekur stakkaskiptum, samanber áður
óþekktan hlut símafyrirtækja í dreifingu á íslenskum kvikmyndum í gegnum
VOD og aðrar vefveitur.
15 Ýmiss konar fróðleik má afla sér um starfsemi Norræna kvikmynda- og
sjónvarpssjóðsins á heimasíðu hans, http://www.nordiskfilmogtvfond.com/.
16 Um þetta fjallar Björn Ægir Norðfjörð nánar í grein sinni í þessu hefti.
17 Nicholas Rombes, Cinema in the Digital Age, New York og London: Wallflower
Press, 2018; Brian mcKernan, Digital Cinema: The Revolution in Cinematography,
Post-Production, and Distribution, New York: mcGraw-Hill/TAB Electronics, 2005.
18 Richard Verrier, „End of film: Paramount first studio to stop distributing film
prints“, Los Angeles Times, 17. janúar 2014, LATimes.com, sótt 1. september 2019
af https://www.latimes.com/entertainment/envelope/cotown/la-et-ct-paramount-
digital-20140117-story.html.