Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 266
„ÞANNIG ER SAGA OKKAR“
265
En sagnritunarsjálfsögur, rétt eins og póstmódernisminn sjálfur, neita þó
ekki tilvist sögunnar, heldur framandgera tilurð hennar og þekkingu manna
um hana. Hutcheon segir til dæmis:
[Foucault, Lyotard og fleiri fræðimenn hafa ýjað að því að] hvers
konar þekking geti aldrei komist undan því að hafa samvinnu við
einhverskonar meta-frásögn, við hugarsmíðir sem geri mönnum
kleift að eigna sér „sannleika“, sama hversu tímabundinn [sá sann-
leikur er]. Það sem þeir bæta við engu að síður er að engin frásögn
getur verið náttúruleg stór-frásögn: það er engin náttúruleg stig-
skipun; einungis sú sem við búum til.57
Sögumaðurinn í Hundadögum íhugar líka oft mörk lygi og sannleika. Hann
telur að á milli þessara tveggja fyrirbæra séu engin endanleg mörk, og að
sannleikur sé stundum beinlínis samheiti orðsins lygi: „Því betur sem við
kynnumst sannleikanum því lygilegri verður hann. Við hvert skref sem stig-
ið er, alltaf minnkar bilið á milli sannleika og lygi, raunveruleika og skáld-
skapar“ (206). Hann spyr líka: „En hvað er satt og hver lýgur hverju að
hverjum?“ (70). Handan við lygina leynast aðrar spurningar áleitnar: Hvers-
konar sannleikur er sagður og frá hvaða sjónarmiði er hann sannleikur?
Sögumanni þykir erfitt að gera greinarmun á sannleika og lygi, en það stafar
af því að sannleikur er aldrei einn og óskiptur heldur eru fremur til margvís-
legir „sannleikar“ í fleirtölu.58
Í þessu samhengi kynnu lesendur Hundadaga að vera forvitnir um: Hvaða
sannleika eða sannleikum vill Einar Már Guðmundsson miðla með þessari
skáldsögu sem segir frá og tengir saman sögur af nokkrum raunverulegum
sögulegum persónum? Þeir kunna jafnframt að undrast að sögumaðurinn
skuli tengja Jörgen Jörgensen, séra Jón Steingrímsson og Finn Magnússon
saman, og sumum þykir jafnvel að sögunum af séra Jóni og Finni sé ofaukið
57 Sama rit, bls. 13. Á ensku segir, „any knowledge cannot escape complicity with some
meta-narrative, with the fictions that render possible any claim to “truth,” however
provisional. What they add, however, is that no narrative can be a natural “master”
narrative: there are no natural hierarchies; there are only those we construct.“ Vert
er að taka fram að með hugtakinu „meta-frásögn“ (e. meta-narrative) á Hutcheon við
„stór-frásögn“ (e. master narrative). Um hina eiginlegu metafrásögn sjá nmgr. 40.
58 Sama rit, bls. 109. Sbr. líka „En sá sannleikur / sá mælikvarði / sá fjársjóður / er ekki
Sannleikurinn Mælikvarðinn og Fjársjóðurinn“, Sigfús Daðason, Ljóð 1947–1996,
Reykjavík: JPV útgáfa, 2008, bls. 53. Ljóðið birtist upphaflega í Höndum og orðum
(1959).