Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 30
LjÓS Í MYRKRI
29
Hvað varðar tæknilega útfærslu skildu himinn og haf að myndir þeirra
Lofts og Óskars og kvikmyndavorsins, en þær voru engu að síður fagur-
fræðilega séð almennt látlausar. Frásögnin var í brennidepli og kvikmynda-
gerðarmenn gerðu sér far um að miðla henni með sem skýrustum hætti til
áhorfenda. Gamanmyndir – sem ósjaldan eru taldar öðrum myndum stað-
bundnari – voru einkar áberandi og mætti í því sambandi nefna Með allt á
hreinu (Ágúst Guðmundsson, 1982), Stellu í orlofi (Þórhildur Þorleifsdóttir,
1986) og Lífs-þríleik Þráins Bertelssonar (1983 – 1985). Þá er vert að geta þess
hversu áberandi kvenleikstjórar eru á þessum fyrsta áratugi eiginlegrar ís-
lenskrar kvikmyndagerðar en Guðný Halldórsdóttir, Kristín jóhannesdóttir,
Kristín Pálsdóttir, Róska og Þórhildur Þorleifsdóttir þreyttu allar frumraun
sína á honum. Því miður hefur hlutur kvenna orðið æ rýrari allar götur síðan
og hefur það ljóslega komið niður á fjölbreytileika íslenskra kvikmynda, sem
eru æði karlmiðaðar. Kvenleikstjórar er ekki aðeins líklegri til að segja sögur
af konum heldur eru það þeir sem helst beygja frá hefðbundnum viðmiðum
við gerð kvikmynda á níunda áratugnum, samanber myndirnar Sóley (Róska/
Manrico Pabolettoni, 1982), Á hjara veraldar (Kristín jóhannesdóttir, 1983)
og að einhverju leyti Kristnihald undir Jökli. Heimildarmyndir urðu hins
vegar útundan hjá Kvikmyndasjóði í öllu umstanginu í kringum hinar lang-
þráðu leiknu frásagnarmyndir, en engu að síður hófu á áratugnum Erlendur
Sveinsson og Sig. Sverrir Pálsson víðtæka umfjöllun sína um íslenskan sjáv-
arútveg með Lífið er saltfiskur (1986) og Silfri hafsins (1987) sem nær ákveðnu
hámarki með kvikmynd Erlends um Verstöðina Ísland (1991). Þá vöktu mikla
athygli myndir Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík (1982) og Kú-
rekar norðursins (1984), en hann átti eftir að verða mikilvægasti kvikmynda-
gerðarmaður landsins á tíunda áratugnum.
Í upphafi áratugarins nutu íslensku myndirnar óheyrilegra vinsælda og
sá næstum helmingur þjóðarinnar Land og syni, Óðal feðranna og Með allt á
hreinu í kvikmyndahúsum.22 Þegar nýjabrumið fór af frumsýningu íslenskra
mynda tók aðsókn hinsvegar að dvína og einstaka myndir hlutu mjög dræma
aðsókn. Þar sem kvikmyndagerðarmenn þurftu að fjármagna myndir sínar
Cold?“, Transnational Cinema in a Global North: Nordic Cinema in Transition, ritstj.
Andrew nestingen and Trevor G. Elkington, Detroit: Wayne State University
Press, 2005, bls. 341–356.
22 Hafa ber í huga að fjöldi kvikmyndagesta var ekki talinn með jafn kerfisbundnum
hætti á níunda áratugnum og tilfellið er í dag, en færð hafa verið góð rök fyrir því
að um 120 þúsund hafi séð Með allt á hreinu sem löngum hefur verið talin vinsælust
allra íslenskra kvikmynda. Sjá til að mynda Helgi Snær Sigurðsson, „nær helmingur
þjóðarinnnar í bíó“, Morgunblaðið, 9. september 2008, bls. 40.