Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 95
BjöRN ÞóR VilHjálMSSoN
94
Sannfærandi rök má auðvitað færa fyrir því að myndbandaleigur geti ekki
verið reknar sem einhvers konar sorpmenningarskjól, aflandssvæði utan við
lögsögu þeirra aðila sem í hálfa öld hafa haft því hlutverki að gegna að gæta
hagsmuna barna. En skrefið sem næst þarf að taka til að komast að endastöð
frumvarpsins, kvikmyndabanninu, leiðir ekki sjálfkrafa af því sem komið
hefur fram. Það er að segja, þótt rök hafi verið færð fyrir nauðsyn nýrra
laga eða gagngerrar endurskoðunar á þeim gömlu, mætti benda á að fyrir-
liggjandi frumvarp gangi of langt með því að leggja blátt bann við tilteknum
kvikmyndum. Þannig lendi það í árekstri við ákvæði stjórnarskrárinnar um
tjáningar- og prentfrelsi. Tvær tegundir af fyrirtækjum byggðu rekstur sinn
á þessum tíma á því að selja aðgang að kvikmyndum, kvikmyndahúsin og
myndbandaleigurnar. Barnaverndarsjónarmiðum var framfylgt í formi ald-
urstakmarkana í kvikmyndahúsum og engin rökleg ástæða var fyrir því að
hinni fyrirtækjagerðinni, myndbandaleigunum, ætti ekki að vera hægur leik-
ur að laga sig að slíkum reglum og haga rekstri sínum eftirleiðis í samræmi
við fyrirliggjandi lög. Væri sú leið farin að fella starfsemi myndbandaleigna
undir strangara eftirlit mætti jafnframt forðast skerðingu á tjáningarfrelsi
borgaranna.56 Svar við þessari mótbáru var hins vegar skrifað inn í athuga-
semdirnar með frumvarpinu og var þar að finna þungvægustu rökin fyrir
nauðsyn bannlistans.57
56 Í ljósi þess að hér er vísað til tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar er rétt að
halda því til haga að strangt til tekið var ekki kveðið á um tjáningarfrelsi í stjórnar-
skránni á þessum tíma, heldur eingöngu prentfrelsi. Enda þótt sátt hafi lengi verið
um að túlka prentfrelsisákvæðið vítt er þessi staðreynd merkingarbær í samhengi við
kvikmyndir. Fyrir kom að bryddað var upp á umræðum eða ákvarðanir voru teknar
sem gáfu sterklega til kynna að eðlilegt þætti að ritskoða kvikmyndir. Það sem þar
var þá í húfi var sú staðreynd að sem myndmiðill féllu kvikmyndir ekki undir bók-
staflegustu merkingu prentfrelsisákvæðisins. Dæmi um þetta má finna í málflutningi
Þórðar Eyjólfssonar hæstaréttardómara í grein sem hann skrifaði í Vísi árið 1957,
en þar er því bæði haldið fram að ritskoðun sé stunduð á kvikmyndum á Íslandi, og
að hún sé réttlætanleg í ljósi þess að ekki sé um prentmiðil að ræða. Kristín Svava
Tómasdóttir fjallar um Þórð og greinina hans í samhengi við prentfrelsisákvæðið í
Stund klámsins, bls. 143-144.
57 Þannig vildi til að í byrjun árs 1983 lágu tvö frumvörp fyrir Alþingi er höfðu það
að markmiði að bregðast við framboði á ofbeldisefni á myndbandamarkaðnum,
stjórnarfrumvarpið um bann á ofbeldismyndum sem síðar varð að lögum, og annað
sem flutt var af tveimur þingmönnum Alþýðuflokksins, þeim Eiði guðnasyni og
Kjartani jóhannssyni. Síðarnefnda frumvarpið lagði til breytingar á lögum um vernd
barna og ungmenna og færði auknar skyldur á herðar myndbandaleignanna með það
að markmiði að koma í veg fyrir að ofbeldisefni á myndbandi kæmist í hendurnar
á börnum. Í frumvarpinu segir: „Seljendum eða leigjendum kvikmynda á mynd-
böndum eða myndplötum er óheimilt að leigja börnum innan 16 ára aldurs mynd-