Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Qupperneq 98
„TAuMlAuST BlóðBAð áN liSTRæNS TilgANgS“
97
Kjarni málsins er sá, að það er ekki til nema einn endanlegur dómari
um það, hvað almenningi hentar í þessum efnum og öðrum skyld-
um, og það er almenningur sjálfur. og ef við erum að tala um hluti
eins og menningarstig er auðvitað aðeins einn endanlegur dómstóll
og mælikvarði á það, hvert menningarstig er og með hverjum hætti,
og það eru þeir sem menningarinnar neyta og njóta. Sú haftahugs-
un, sú menningarlega haftahugsun, sú forsjárhyggja, sem fram kom
í máli síðasta hv. ræðumanns, það er nákvæmlega þetta sem menn
hafa ástæðu til að óttast þegar til lengri tíma er litið.60
Ræðumaðurinn sem Vilmundur vísar til er Halldór Blöndal, en hann var
ákafur talsmaður lagasetningarinnar. Það eru þó ekki síst lokaorð Vilmundar
sem vert er að gefa sérstakan gaum. Frá upphafi umræðunnar um bannlögin
hafði Vilmundur bent á að hætta væri á því að lög eins og þessi, sett til að
bregðast við sértækum aðstæðum, yrðu síðar meir „túlkuð með allt öðrum
hætti, þegar hinar tímabundnu sérstöku aðstæður hafa gleymst“, og var það
fyrir hans tilstilli að svokölluðu „sólarlagsákvæði“ var bætt við lögin.61 Það
þýddi að gildistími laganna væri aðeins fimm ár. Að þeim tíma loknum væri
hægt að endurnýja þau, þætti ástæða til.
lögin sem samþykkt voru 1983 um bann við ofbeldismyndum voru ekki
umfangsmikil í orðum talið, fimm greinar og allar stuttar, að þeirri fyrstu
undanskilinni, sem er sú sem mesta þýðingu hefur. Þar er kveðið á um bann-
ið á ofbeldiskvikmyndum en stærstum hluta greinarinnar er varið í að skil-
greina merkingarsvið hugtaksins „ofbeldiskvikmynd“, sem ástæða þykir að
gera í tvennu lagi. Annars vegar merkingu orðsins eins og það kemur fyrir á
blaði, en til viðbótar er skilningur laganna á kvikmyndahugtakinu sem slíku
tilgreindur. Eftirfarandi klausa er hins vegar þungamiðja lagagreinarinnar:
„ofbeldiskvikmynd“ merkir í lögum þessum kvikmynd, þar sem
sérstaklega er sóst eftir að sýna hvers kyns misþyrmingar á mönn-
um og dýrum eða hrottalegar drápsaðferðir. Bannið tekur ekki til
kvikmynda, þar sem sýning ofbeldis telst eiga rétt á sér vegna upp-
lýsingagildis kvikmyndarinnar eða vegna listræns gildis hennar.62
60 Vilmundur gylfason, „158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum – Dálkur 2518 í
B-deild Alþingistíðinda (2335)“, Althingi.is, 4. mars 1983, sótt 13. júni 2019 af https://
www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=105&rnr=2335.
61 Vilmundur gylfason, „158. mál, bann við ofbeldiskvikmyndum – Dálkur 2457 í
B-deild Alþingistíðinda (2264)“, Althingi.is, 3. mars 1983, sótt 13. júni 2019 af https://
www.althingi.is/altext/raeda/?lthing=105&rnr=2264.
62 „Frumvarp til laga um bann við ofbeldiskvikmyndum“, Althingi.is.