Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 137
SiGRÚn MaRGRéT GUðMUndSdóTTiR
136
Í ljós kemur að Björg ólst upp í húsinu. Móðir hennar lést þar eftir erfið
veikindi og faðir hennar, sem starfaði sem miðill fór að drekka og missti
fótanna þegar hann hóf að beita bellibrögðum á miðilsfundum. Upp komst
um svikin og í kjölfarið varð barnið Björg vitni að sjálfsvígi föður síns á jól-
unum. Björg hefur ekki hugmynd um hörmulega fortíð sína þegar hún flytur
inn með Pétri heldur fara atburðirnir að sækja að henni með óhugnanlegum
hætti. Sagan verður henni að bana því þegar Björg hefur raðað saman brot-
unum úr lífi sínu í rétta röð og öðlast þekkingu á upprunanum verður hún
fyrir bíl og deyr, ólétt að barni þeirra Péturs.
Í greininni verður rætt um hvernig og hvers vegna húsið í kvikmynd
Egils lokkar söguhetjuna til sín og heldur henni fanginni. Bældar minningar
um hryllilegar aðstæður eða atburði sem áttu sér stað í fortíð sögupersóna
er eitt af eftirlætisviðfangsefnum gotneskra skáldsagna og kvikmynda í sam-
tímanum enda eru hrollvekjur um reimleikahús oftar en ekki hrollvekjur um
heila þeirra sem þar búa.3 Bókmenntafræðingurinn Catherine Spooner segir
í bókinni Contemporary Gothic að reimleikahúsið sé trámatískur staður en í
sömu mund birtingarmynd trámans sem ásækir mannshugann.4 Í húsinu í
kvikmynd Egils birtist tráma sem Björg varð fyrir í æsku sem nokkurs konar
afturgöngur, en í ljós kemur að þær reika aðeins um í huga hennar sjálfrar.
Fjallað verður um hvernig reimleikahúsið birtir þennan þátt í heilastarfi
Bjargar með hliðsjón af nýlegum kenningum um tráma, einkum verður litið
til rannsókna geðlæknanna Bessel van der Kolk og Onno van der Hart.
Hér eru búnir til draugar
Reimleikahús eru grafreitir gotneskra leyndarmála sem ekki má ræða, en
jafnframt eru þau staðir þar sem leyndarmálin lifna við – og ganga aftur.
Þessi tvöfaldi eiginleiki reimleikahúsa kemur fram strax í upphafi kvik-
myndar Egils þar sem leyndarmálið sem söguþráðurinn hverfist um er vakið
upp í vissum skilningi. Myndin hefst á svörtum skjá og á eftir titlinum, Húsið:
Trúnaðarmál, rúllar aðstandendalistinn. Karlmannsrödd fer með faðirvorið
og fleiri raddir taka undir. Áhorfendur eru viðstaddir miðilsfund – án þess
að vita það. Þar er verið að særa fram látið barn eins og fram kemur síðar í
3 Hér nægir að nefna The Shining eftir Stephen King (1977), sem hverfist um tráma-
tíska atburði sem eiga sér stað innan Torrance fjölskyldunnar. Áföllin ásækja fjöl-
skyldumeðlimi í líki drauga sem ganga aftur á hótelinu, líkt og „raunverulegar hroll-
vekjur sem spilast í nánast hverju herbergi“ hótelsins. Stephen King, Danse Macabre
[mobi], London: Hodder & Stoughton, 2006, bls. 298.
4 Catherine Spooner, Contemporary Gothic, London: Reaktion Books, 2006, bls. 18.