Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Blaðsíða 171
SiGRÚn MaRGRéT GUðMUndSdóTTiR
170
aðrar upplýsingar fá áhorfendur um Guðnýju í endurliti. Hún liggur
heilsuveil í rúminu, þar sem Guðmundur miðill matar hana ýmist eða gefur
henni lyf í fyrstu.98 Í síðasta endurlitinu sem beint er til Guðnýjar liggur hún
látin í líkkistu þar sem verið er að breiða hvítan klút yfir andlit hennar. Þann-
ig birtist móðirin sem klassískur gotneskur kvenlíkami. Hún er algjörlega
óvirk; slökkt er á allri líkamsstarfseminni, aðgangur að líkamanum heftur
með krosslögðum handleggjunum í kistunni og lokaður munnurinn undir
klæðisstykkinu boðar eilífa þögn. Staða hennar er táknræn fyrir heimilið þar
sem dyrunum er lokað og læst á eftir húsfreyjunni.99 Björg heldur áfram á
þeirri braut sem móðir hennar ruddi fyrr. Hún er í þeim skilningi einhvers
konar framhald af líkama hennar. að minnsta kosti endurtekur hún þræði
úr lífi mömmu sinnar og bergmálar einnig dauða hennar. Móðir Bjargar er
þannig hljóðlátasta en kannski mikilvægasta persóna Hússins.
Hliðstæðan er dregin skýrum dráttum í myndinni því Björg hvílir bók-
staflega þar sem móðir hennar lá banaleguna, í svefnherberginu í húsinu.
Björg er þannig aldrei einráð um eigin líkama, hún ræður ekki heldur ör-
lögum sínum eða hlutverki á heimilinu; hún er eins og mamma hennar,
fullkomlega þögul og máttlaus í eigin fortíð, samtíma og framtíð.100 Reim-
leikahús hverfast um upprunann, líkt og Barbara Creed gerir grein fyrir. Í
þeim eru endalokin einnig fólgin. Húsið í kvikmynd Egils er þannig nokkurs
98 Gefið er til kynna að móðir Bjargar sé veik og að eiginmaður hennar gefi henni lyf
við sjúkdómnum sem hrjáir hana. Það má þó nefna að annar lestur er mögulegur, því
það er svo sem ekkert sem mælir gegn því að faðir Bjargar sé hreinræktaður óþokki
í anda gotnesku stefnunnar, sem eitrar smám saman fyrir móðurinni; lyfjaglösin við
rúmstokkinn eru til dæmis ómerkt og veikindi móðurinnar aldrei tilgreind nákvæm-
lega. Slíkan lestur mætti rökstyðja með svipbrigðum föðurins og harmrænum enda-
lokum hans. Eyðan í vitund Bjargar og þögn samfélagsins um uppruna hennar yrði
þá jafnvel ennþá óbærilegri.
99 Þessar líkingar táknuðu þöglu jómfrúna á viktoríutímanum. Sjá Marie Mulvey-
Roberts, „The Female Gothic Body“, Women and The Gothic. An Edinburgh Com
panion, ritstj. avril Horner og Sue Zlosnik, Edinburgh: Edinburgh University Press,
2016, bls. 106–120.
100 Í Dómsdegi er Sólborg ekki sjálfráð yfir líkama sínum. Látið er að því liggja að barnið sem
bróður hennar er kennt og þau systkinin bera út sé í raun og veru prestsins og að það
verði til þess að hún fremur sjálfsvíg. agnes í samnefndri kvikmynd ræður heldur ekki yfir
líkama sínum. Sýslumaðurinn nauðgar henni á meðan hún er í vist hjá honum og þegar
agnes er boðin upp við vistaskipti er söluræðan á þá leið að sá sem kaupi hana geti haft
kynferðislegt gagn af henni. natan lítur á samband sitt við agnesi sömu augum, hann
greiðir fyrir hana háa upphæð og eignast líkama hennar þar með. Sögulok eru svo flestum
kunn, þegar endanlegt valdaleysi konunnar birtist í því að karlarnir taka agnesi af lífi.