Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Page 183
BjöRN ÞóR VIlHjÁlmSSoN oG KjARTAN mÁR ómARSSoN
182
að laga sig að tilteknum hugmyndum og áherslum, viðfangsefnum og fagur-
fræðilegum eða sjónrænum stílbrögðum. Á hinn bóginn gætu slíkar forkröf-
ur virkað sem eðlilegur og náttúrulegur hluti af heimsmyndinni sem þegar
er til staðar, og myndi það þá vera vitnisburður um hraustlega ímyndaða
þjóðmenningu; ímyndað samfélag sem tryggt hefur stöðu sína og aðgengi
að veruleikanum, og er því að virka eins og það á að gera.
Virkni þjóðarbíósins í huga Higsons er ekki ósvipuð þeirri sem Benedict
Anderson telur sig greina í hinu ímyndaða samfélagi, og mætti því hugsan-
lega líta á þjóðarbíóið sem eins konar mise en abyme samfélagsins ímynd-
aða. Hér er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að Higson er gagnrýnn á
bæði hugtökin, ímyndaða samfélagið og þjóðarbíóið, og mun frekar svo í
greininni sem hér er þýdd en þeirri sem birtist tíu árum fyrr í Screen. Rök-
vísi hins ímyndaða samfélags knýr á um sköpun sameiginlegrar menningar,
sameiginlegrar þjóðarvitundar, sameiginlegrar heimsmyndar, sameiginlegs
tungumáls og almennrar samheldni. Þetta eru allt grunnforsendur þjóðar-
innar, í fjarveru þeirra gæti hún ekki verið til. Vitanlega fylgja kostir slíkri
samfélagsgerð og áherslum en Higson beinir sjónum að fórnarkostnað-
inum, eftirköstunum og afleiddum áhrifum. Væri þar hægt að nefna óþol
í garð mismunar og hins sértæka, þess sem er hinsegin eða öðruvísi. Hið
afmarkaða og sérstaka lendir undir mulningsvél heildarinnar. Hugmynda-
fræði þjóðarinnar er ekki endilega vinsamleg þjóðarbrotum eða menningar-
kimum, því sem sker sig úr eða skilur sig frá. Flatneskja blasir við Higson
og hann hefur djúpstæðar efasemdir um gagnsemi þessara stóru og alltum-
lykjandi hugmynda. En samhliða því að Higson dregur fram þversagnir,
árekstra og ágalla fjallar hann um hugtökin og skírskotunarkerfi þeirra á
djúpstæðan, skarpan og sérlega gagnlegan hátt. Það er svo lesanda að taka
afstöðu í kjölfar lestursins.
Björn Þór Vilhjálmsson
lektor í almennri bókmenntafræði
og kvikmyndafræði
Íslensku- og menningardeild
Hugvísindasviði Háskóla Íslands
Sæmundargötu 2
IS-101 Reykjavík, Ísland
btv@hi.is
Kjartan Már Ómarsson
Doktorsnemi í almennri
bókmenntafræði
Íslensku- og menningardeild
Hugvísindasviði Háskóla Íslands
Sæmundargötu 2
IS-101 Reykjavík, Ísland
ko@hi.is