Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Side 225
HJALTI HugASOn
224
stæðir hlutar af góðri sköpun guðs.67 Á miðöldum var svo löngum deilt um
valdmörk hins andlega og veraldlega m.a. á grundvelli gregoríanisma.68
Lúther hafði vissulega mikil áhrif á hvernig tengsl ríkis og kirkju þróuð-
ust eftir hans daga með því að kalla hið veraldlega vald til að axla ábyrgð
á siðbótarmálefninu og til að vernda og styrkja kirkjuna í margháttuðum
vanda hennar. Sjálfur leit hann svo á að þar væri um kristilega skyldu yfir-
valdanna að ræða sem væri sérlega brýn þegar kirkjuleg yfirvöld höfðu dauf-
heyrst við siðbótarkröfunum. Eigi að síður jók sú þróun sem hófst í kjölfarið
vald fursta á sviði kirkjumála til langs tíma þótt Lúther hafi hugsað inngrip
þeirra sem tímabundna ráðstöfun á grundvelli upp komins undantekningar-
eða neyðarástands.
Páll Stígsson (Poul Stigsen Hvide) sem var höfuðsmaður og þar með
æðsti fulltrúi konungs hér á landi 1560–1566 er gott dæmi um veraldlegan
valdsmann sem brást vel við þessu ákalli. Sýnt hefur verið fram á að hann
taldi sér skylt að láta flestar hliðar siðbótarmálsins hér til sín taka. Þar með
hefur hann einnig aukið vald konungs yfir kirkjumálunum líkt og á öðrum
sviðum þótt það hafi ekki verið yfirlýst markmið hans með kirkjulegu að-
gerðunum.69 Aukin tengsl kirkju og ríkis voru þó ekki bundin við lúthersku
siðbótina heldur má greina svipaða þróun m.a. í kaþólskum löndum.70 Þau
ber því öðrum þræði að skoða sem hluta af þróun hins miðstýrða ríkisvalds.71
Afleiðing hennar á sviði kirkjumálanna var að fram kom ríkiskirkja og jafn-
vel ríkisátrúnaður þar sem kirkja og ríki eru algerlega samfléttuð. Sýnir það
að tveggja ríkja kenningin sem margir telja að hafi valdið miklum umbótum
67 Björn Björnsson, „um hjúskaparmál í lútherskum sið“, Lúther og íslenskt þjóðlíf:
Erindi flutt á ráðstefnu um Martein Lúther, er haldin var 4. nóvember 1983 í tilefni
þess að 500 ár voru liðin frá fæðingu hans, ritstj. gunnar Kristjánsson o.a., Reykjavík:
Skálholt, Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, bls. 141–152, hér bls. 142.
68 gregoríanismi er kirkjupólitísk stefna kennd við gregorius VII. páfa (1073–1085)
en hann beitti sér fyrir sjálfstæði kirkjunnar og siðbótum innan hennar. Hann
tókst m.a. á við veraldlega valdhafa um veitingarrétt kirkjulegra embætta svo af
hlutust langvarandi deilur, tignarskrýðingardeilurnar (e. investiture controversy).
Per Ingesman, „Middelalderen“, Kirkens historie 1, Kaupmannahöfn: Hans Reitzels
Forlag, 2012, bls. 309–779, hér bls. 400–409. Staðamál voru íslensk útgáfa þessara
deilna en þau fjölluðu um hver hefði veitingarvald á kirkjulénum (lat. beneficium).
69 Hjalti Hugason, „Skyldur lúthersks yfirvalds: Páll Stígsson og siðbótin á Íslandi“,
Áhrif Lúthers: Siðaskipti, samfélag og menning í 500 ár, ritstj. Hjalti Hugason o.a.,
Reykjavík, Hið íslenska bókmenntafélag, 2017, bls. 19–41. Sjá Axel Kristinsson,
Hnignun, hvaða hnignun?, bls. 94.
70 Sven göransson, Från påvens gudsstat till religionsfriheten, Torben Christiansen og
Sven göransson, Kyrkohistoria 2, Stokkhólmi: Svenska Bokförlaget, 1969, bls. 67.
71 Sjá Axel Kristinsson, Hnignun, hvaða hnignun?, bls. 94–95, 157–9, 169–171.