Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2019, Side 287
DAvÍð G. KRISTInSSOn
286
öld tíðkaðist að menn öfluðu fanga í verk sín án þess að vera sérlega upp-
teknir af mörkum fræðigreina. Fræðimennska Bjargar er af þessum toga.“39
Í einfölduðu máli má segja að á síðari hluta tuttugustu aldar hafi fræðamörk
sumra ungra vísindagreina orðið ósveigjanlegri en að undir aldarlok hafi
markalínur milli vissra fræðigreina verið farnar að dofna á ný. Þannig skrifar
sagnfræðingur á aldamótum um rannsóknir „á samfélögum og menningu
þeirra. Síðustu áratugi hefur mikil áhersla verið lögð á menningarsögu, með
þeim afleiðingum að hin hefðbundnu fræðamörk milli sagnfræðinga og t.d.
bókmenntafræðinga hafa að hluta til þurrkast út. Því er oft erfitt að sjá hvort
það er sagnfræðingur eða bókmenntafræðingur sem situr við lyklaborðið.“40
Þessar vangaveltur um miðaldafræði mætti, að breyttu breytanda, yfir-
færa á rannsóknir á samfélagi og menningu hérlendis fyrir og eftir hrun:
Hversu líkar eru rannsóknir ólíkra fræðigreina á kreppunni? Þótt vissulega
séu einhver sérkenni á skrifum um hrunið eftir vísindagreinum vekur það
athygli að fræðamörk eru hér ekki alltaf jafn skýr og við eigum að venjast.
Rannsóknir grannvísinda eru á heildina litið innbyrðis áþekkari en vænta
mætti af þeim fjölda fræðigreina sem hér er rýnt í. Því má spyrja hvort óskýr
fræðamörk endurspegli þróun innan háskólasamfélagsins undanfarin ár og
áratugi. Eða eru rannsóknir íslensks háskólafólks á hruninu ódæmigerðar
fyrir fræðamörk að því leyti sem fræðimenn úr mismunandi greinum vísinda
höfðu allir greiðan aðgang að sömu skýrslum, fjölmiðlum, blaðaskrifum,
bloggsíðum og voru sjálfir að einhverju leyti í persónulegum tengslum við
viðfangsefnið? Gera þessar fágætu rannsóknaraðstæður það að verkum að
skrif fræðafólks úr ólíkum vísindagreinum um hrunið eru áþekkari en væri
tilfellið ef viðfangsefnið væri annað og fjarlægara?
Greining á þróun markalína milli heimspeki og skyldra fræðigreina
undanfarna áratugi myndi sprengja ramma þessarar rannsóknar. Hér verður
að nægja að skoða fræðamörkin eins og þau birtast í rannsóknum á hruninu.
Hvað skilur sjónarhorn einnar vísindagreinar frá sjónarhorni annarrar? Er
það að endingu persónuleg nálgun hvers og eins sem í litlu háskólasamfélagi
ræður meiru um sérkenni niðurstöðunnar en fræðigreinin sem viðkomandi
er fulltrúi fyrir? Er nálgun hugvísinda áþreifanlega önnur en félagsvísinda,
verklag vísindagreina af sama fræðasviði innbyrðis áþekkari en aðferðir ann-
arra vísindasviða? Að hvaða leyti greina aðferð, efnistök, reynslugögn og
39 Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, „Formáli“, Björg. Verk Bjargar C. Þorláksson, ritstj.
Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Reykjavík: JPv, 2002, bls. 7–18, hér bls. 8.
40 Jón viðar Sigurðsson, „Allir sem sjá líta þó ekki jafnt á. Sagnaritun um íslenskar
miðaldir fram um 1300“, Saga 38/2000, bls. 33–57, hér bls. 33.