Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 32
Páll Skúlason
Andlegu straumamir tveir eiga sér alkunnar uppsprettur, aðra hebreska,
hina gríska. Annars vegar er hinn gyðinglegi-kristni straumur, hins vegar
hinn gríski-fílósófíski straumur. Af samruna þeirra sprettur evrópsk menn-
ing sem nú teygir anga sína um víða veröld, ekki síst í nafni alþjóðlegra
vísinda og kristinnar trúar. Því fer fjarri að nefndur samruni hafi gengið
átakalaust fyrir sig eða sé einfalt og sjálfsagt mál. í rauninni er þessi sam-
runi alls ekki til lykta leiddur og verður það líklega aldrei. Á milli persónu-
legrar trúar kristinnar sálar og ópersónulegrar skoðunar fræðilegrar hugs-
unar er frá vissum sjónarhóli óbrúanleg, hyldjúp gjá. Annars vegar er
tilbeiðslan, játningin, vonin — hins vegar greiningin, kenningin, rök-
semdin. Og á milli þeirra er togstreita og spenna sem tekið hefur á sig ótal
myndir í sögunnar rás og elur enn af sér nýjar og nýjar myndir, líkt og um
síendurteknar, andlegar samfarir sé að ræða.
í akademísku háskólalífi hafa menn frá því á miðöldum sveiflast á milli
þriggja kosta í afstöðu sinni til hinna tveggja hefða.
Fyrsti kosturinn er sá að viðurkenna sjálfstæði þeirra hvorrar um sig,
takmarkanir og gagnkvæman stuðning. Þá höfum við annars vegar svið
trúarinnar, hins vegar svið skynseminnar. Trúin lýtur mætti opinberunar-
innar í orði Guðs, skynsemin lýtur mætti röksemda sem hún sjálf skilur.
Hinn kristni maður finnur á stundum skynsemi sína upptendraða af trú og
fær þá numið hluti sem skynsemi hans skilur ekki af eigin rammleik, en að
öllu jöfnu starfar skynsemin á sínum eigin forsendum eingöngu. Á hinn
bóginn sækir trúin styrk til skynseminnar til að rýna í Guðs orð og einnig
fær trúin stuðning hjá skynseminni þegar að henni er ráðist og hún talin
stangast á við vísindaleg rök og staðreyndir. Heilagur Tómas gefur
fordæmi fyrir afstöðu af þessum toga.
Annar kosturinn er sá að telja trúna eiga að ríkja yfir sviði skyn-
seminnar og hafna þar með sjálfstæði hennar. Hér er ekki lengur um
gagnkvæm tengsl að ræða, heldur skal skynsemin fara að þeim lögum sem
trúin setur henni. Að öðrum kosti getur skynsemin farið að fjalla um efni
sem eru handan takmarkana hennar, fella dóma um guðleg málefni sem
hún hefur engar traustar forsendur til að fjalla um. Allt andlegt líf skal lúta
lögum trúarinnar, öll þekking og vísindi skulu vera frá Guði komin. Lúther
og fleiri mótmælendur, svo sem Kierkegaard, gefa okkur fordæmi fyrir
þessari afstöðu.
30