Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 47
Hvað er Guð?
í tíma talar Ritningin t.d. um ríki Guðs (veldi Guðs). Hún talar ekki um
það sem tímatal, að í framtíð (þ.e. eftir svo eða svo mörg ár) muni atburðir
verða, heldur um merkingu tímans, merkingu þess að tíminn mun senn
vera á enda, og hverju það breytir um afstöðu til líðandi stundar að Guð sé:
yfirbjóðandi engla og þjóða,
ei þurfandi stað né stundar,
stað haldandi í kyrrleiksvaldi,
senn verandi úti og inni,
uppi og niðri og þar í miðju,
eins og Eysteinn Ásgrímsson kemst að orði í Lilju sinni, að Guð sé yfir-
bjóðandi tímanna, að veldi hans sé ljóst orðið nú, í lífi Jesú og í lífi hins
eilífa Krists meðal vor, og að veldi hans muni í framtíð augljóst verða, við
endalok tímanna. Þetta er transcendentalt tal um tímann.
Gott og einfalt dæmi þessa eru orð Jesú í upphafi Markúsarguðspjalls
(1.15):
Tíminn er fullnaður og Guðs ríki er í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu.
Hér er ekki talað um tímann á sama veg og Almanak Háskólans talar um
hann, heldur á transcendental hátt. Það er talað um merkingu tímans: Hann
leiðir í ljós veldi Guðs. Hann er veldi Guðs, guðsríkið.
Af þessu má ljóst vera að stefna Bultmanns, að afklæða boðskap Nýja
testamentisins sínum mythos er röng. Einnig hefur verið sagt, að ef við (að
hætti Bultmanns) tökum burt mýtu Nýja testamentisins, verðum við að
íklæða boðskapinn mýtu 20. aldarinnar. En mér virðist betra að láta búnað
boðskaparins halda sér, en túlka hann og setja hann síðan fram samkvæmt
vorri mýtu eða heimsskilningi. — En of langt mál yrði að fara út í þá sálma
hér, og myndi það leiða okkur afvega í þessari stuttorðu umræðu um tilvist
Guðs.
Þetta viðhorf til umhverfis okkar (sem skiptir höfuðmáli í guðfræðilegri
umfjöllun um umhverfismál og vandamál hennar, t.d. mengunina) og til
tímans, sem við nefnum transcendens, er í eðli sínu ósegjanlegt. Við
verðum að þegja um það samkvæmt því sem Wittgenstein sagði. En samt
45