Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 63
Ný kirkjuleg guðfræði
Þetta þjóðfélag, þetta mannfélag — sem skoðast lífrænum, organískum
skilningi eins og meiður sem ber sínar greinar (einstaklinganna) — er sér-
stæðs eðlis. í Gamla testamentinu lýtur þjóðfélagið allt Guði. Það er í senn
kirkja, guðveldi og almennt þjóðfélag. í Nýja testamentinu er þjóðfélagið
partur af stærra þjóðfélagi; það er kirkja, félagsheild, sem lýtur öðrum lög-
um en sú stærri félagsheild er hún lifir í (rómverska heimsveldið). Hér er
um sama hugtakið að ræða í báðum pörtum ritningarinnar.
ísrael, Guðs lýður (hinn gamli ísrael og hinn nýi fsrael: kristin kirkja),
er í senn pólitískt hugtak og trúarlegt. Það grundvallast á sáttmálanum við
Sínaí (13. öld f.Kr.) Sáttmálinn er ísenn uppistöðuhugsun guðsþjónustunn-
ar, kenningarinnar og þjóðfélagshugsjónarinnar.
Partar sáttmálahugmyndarinnar eru tveir: (a) hið skapandi og frelsandi
náðarverk Guðs er skóp, kallaði, útvaldi sér lýð, kirkju, og (b) andsvar fé-
lagsheildar og einstaklinga við náðarverki Guðs í trúfesti (trú) við vilja
Guðs til heilla mannkyni og trúnaði við skyldur samábyrgðarinnar um hag
annarra, hag náungans. Þessi sáttmálshugsun er ekkert minna en grund-
völlur og rammi allrar trúarhugsunar í ritningunni og undirstöðuhugsun
hins kristna fagnaðarerindis. Samband trúar og siðgæðis, trúar og þjóðfé-
laglífs, trúar og sögu, er því grunnmúrað þegar við Sínaí og er svo æ síðan,
þar sem hinu sögulega eðli fagnaðarerindisins er ekki undan skotið (sem
oft hefir gerst, bæði á tímum Gamla testamentisins og í sögu kirkjunnar).
Samband trúar og þjóðfélagslífs er þegar ljóst orðið hér að framan.
Samband trúar og siðgæðis (lögmáls og fagnaðarerindis) kemur hvergi
skýrar í ljós en í prédikun hinna hebresku kennimanna, spámannanna.
Uppistaðan í hugsun þeirra og prédikun er sáttmálshugsunin, þótt þeir
nefni sáttmálann örsjaldan á nafn af sögulegum ástæðum sem ekki skulu
greindar hér. Réttur og réttlæti er hjá þeim eins konar mælisnúra bygging-
armeistarans, sem þjóðfélagið skóp, einhvers háttar grunntónn í hjarta
Guðs, hjarta sjálfrar tilverunnar sem athafnir manna eiga að stillast við og
samsvara. Dómur, þungur dómur, er upp kveðinn yfir öllu því sem stríðir
gegn þessum óm; ranglæti, mútuþægni, kúgun, efnahagslegum rangindum
og pólitískum. — Þannig miðar prédikun spámannanna að lífi manna á
öllum sviðum einna helst að siðrœnum grundvelli atvinnulífs og stjórn-
mála. Gjána milli trúarlífs og atvinnulífs þekktu þeir ekki. Hún varð til ár-
þúsundi síðar, og smíði brúarinnar yfir hana er eitt brýnasta verkefni kirkju
nútímans, og sprettur sú vitund beinlínis og óbeinlínis af enduruppgötvun
Biblíunnar í kirkju nútímans.
61