Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 171
Lífshamingjan
En svo virðist sem öryggiskennd sé forsenda hamingjunnar. Sá sem býr
við öryggisleysi um afkomu sína, hvort sem hann er bam eða fullorðinn, er
vansæll.
Að lokum finnst mér frelsið vera forsenda sannrar hamingju. Hef ég
fjallað dálítið um það í grein í fyrsta hefti Ritraðar Guðfrœðistofnunar
Háskóla íslands.15 Frelsi er ekki frelsi undan einhverju, heldur frelsi til
einhvers. Sem slíkt er það forsenda hamingjunnar. Það er andrúmsloftið
sem öll gróska þrífst við.
Konan mín bendir mér á að í Stríð ogfriður eftir Leo Tolstoy er fjallað
um sambandið milli frjáls vals og hamingju, þegar Pierre Kyrillovitch
Bezukhov situr í fangelsi og finnst hamingjan fólgin í nautn þeirra hluta
sem honum var neitað um í dýflissunni. En höfundurinn minnir á að gnægð
lífsnautnanna og takmarkalaust frelsi til þess að njóta þeirra spillir löngun-
inni til þess að hafa eitthvað fyrir stafni. Og það er óhamingja, segir
Tolstoy.16
Skapandi starfei forsenda hamingjunnar. Það er ekki aðeins tónskáldið
eða myndlistamaðurinn sem er skapandi. Hver og einn býr yfir sköpunar-
gáfu, hvort sem hún kemur fram í því að búa sér vistlegt heimili eða smíða
fagran og nytsamlegan hlut, eða því einu að vera til á þann hátt sem hæfir.
Bamið í sandkassanum er skapandi vera, og vísindin, þegar þau eru eitt-
hvað annað en sýndarmennska, eru slíkur frjáls sandkassaleikur méð
hugmyndir og staðreyndir. Dóttir Picassos sagði nýlega í blaðaviðtali:
Picasso var hamingjusamt barn. Hann var innilega glaður að vakna á
hverjum morgni til strigans síns og litanna.
Skapandi starf að hinum hversdagslegustu hlutum færir manni
hamingju af því að það gefur lífínu gildi. Og oft er slíkri tilveru lifað í
nærvist þjáningar og dauða.
Það er í ljósi þessa sem við sjáum að tilvist Guðs, hin skapandi og
endurleysandi eða frelsandi tilvist hans, veitir manninum hamingju í
baráttu og þverstæðum lífsins.
15 Þórir Kr. Þórðarson, „Spumingar um hefð og frelsi.“ Studia theologica islandica.
Ritröð Guðfrceðistofnunar Háskóla íslands. 1. hefti, 1988, bls. 105-122.
16 Leo Tolstoy, Stríð og friður. IV. Leifur Haraldsson íslenskaði. Rvík: Uglan.
íslenski kiljuklúbburinn, 1986, bls. 140. Um frelsið fjallar einnig dæmisaga
Dostojefskís um Krist og rannsóknardómarann í Brœðrunum Karamazov, sjá áður
ívitnaða grein mína, bls. 117.
169