Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 161
Lífshamingjan
Hamingjan í Biblíunni
Er við leitum að hliðstæðu við hið íslenska hamingjuhugtak í Biblíunni
kemur í hugann merkingarsvið velgengninnar almennt (og orð eins og túb
og slh/hislíah), en fyrst og fremst kemur til greina hebreska orðið beraka.
Það merkir velgengni og döngun í ýmsum myndum. Vanalega er þetta
nafnorð þýtt blessun, og sögnin sem það er dregið af merkir að efla þá
krafta sem skapa velgengni og döngun, en hún er oftast þýdd að blessa. —
Minnir þetta á að eitt orð á einu máli þýðir sjaldnast annað einstakt orð á
öðru tungumáli. Merkingarsviðin skarast.
Lífskrafturinn
Johannes Pedersen segir í miklu riti um lífsviðhorf Gamla testamentisins:
„Lífskraftinn, sem engin lifandi vera getur án verið, nefna Hebrearnir
beraka, blessun."5 Hugsun Hebreanna er mótuð af því að lífskrafturinn,
sem býr í einstaklingnum, í skepnunum og í jurtum og öðrum fyrirbærum
náttúrunnar, er frumkraftur lífsins. Það er hann sem skilur milli lífs og
dauða og milli hamingju og lánleysis. Þessi blessun eða hamingja er sjálfur
safinn í lífinu. Sem dæmi má nefna að safinn í vínberinu er kallaður
beraka, blessun, í orðtaki einu sem varðveitt er hjá Jesaja: „Eins og menn
segja þegar lögur finnst í vínberi: Ónýt það ekki, því að blessun er í því.“
(65.8).
Þessi lífskraftur er undirstaða lífsins, og hann er ekki til staðar fyrr en
Guð hefur blásið honum í allt kvikt. Þannig skapar Guð, samkvæmt
sköpunarsögunni, allt kvikt og blæs síðan lífi í það sem hann hefur skapað,
þ.e. „blessar“ það. Þá segir: Vötnin verði kvik af lifandi skepnum og fuglar
fljúgi yfir jörðinni. [ . . . ] Og Guð blessaði þau og sagði: Frjóvgist og
vaxið og fyllið vötn sjávarins, og fuglum fjölgi á jörðinni (1M 1.22).
Einnig segir: Hann skóp þau mann og konu og blessaði þau, þ.e.: fyllti þau
lífskrafti, hamingju (5.2).
Lífskrafturinn bjó ekki í öllum jafnt. Sumir ættbálkar voru hlaðnir
lífsorku, blessun, hamingju í ríkari mæli en aðrir kynþættir. Og til eru þeir
menn sem allt mistekst, aðrir sem allt heppnast. Fyrir hinum foma Hebrea
5 Johs. Pedersen, Israel 1-11. Sjœleliv og Samfundsliv. Anden Udgave. K0benhavn:
Povl Branner, N0rregade, 1934, bls. 140. í þessum kafla styðst ég mjög við
Pedersen.
159