Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 169
Lífshamingjan
illskuna í fari mannanna. Og ekki er heldur dregin fjöður yfir þá staðreynd
sem við blasir, að eitt sinn skal hver deyja, sem sumir segja hið eina sem
við vitum með vissu um mannlegt líf.
í sjónvarpinu var nýlega (1988) viðtal við erlendan eyðnisjúkling sem
helgað hefur líf sitt, það sem eftir er af því, starfi til hjálpar öðrum sem
svipað er ástatt um. Hann sagði margt athyglisvert í viðtalinu, en ég tók
sérstaklega eftir einu. Hann sagði að þetta starf hefði gefið lífi sínu, sem
senn mun ljúka, gildi. Sú er kannski uppspretta hamingjunnar, að lífið fái
gildi.
Viðtal13 var nýlega við breskan lækni, dr. Tom West, sem hélt hér
erindi á vegum Krabbameinsfélags íslands og Háskólans um hjúkrun sjúk-
linga sem eiga aðeins fáar vikur eða mánuði ólifaða. Þetta starf miðar að
því að hjálpa fólki til að lifa þangað til það deyr. Sálusorgun er ríkur þáttur
í þessu starfi. Sjúklingurinn vill nýta tíma sinn til að ganga frá sínum
málum, rifja upp horfnar stundir og jafnvel bæta fyrir það sem miður hafði
farið. Og þar á sjúkrahúsinu verða þeir fyrir þeirri reynslu að fjölskylda
sjúklingsins er sundruð vegna ósættis, og til að yfirbuga sektarkenndina er
nauðsynlegt að koma á sáttum áður en sjúklingurinn deyr, ella er það um
seinan og getur valdið hættulegri sektarkennd hjá þeim sem eftir lifir. Dr.
West segir frá gleðilegri reynslu í þessum efnum.
Hér er um svið hamingjunnar að ræða sem ekki má gleymast: Hvemig
lífið þarf að fá sína merkingu frammi fyrir dauðanum og þjáningunni.
En er hamingja möguleg í bland við óhamingju? Meðal þeirra texta
sem mest hafa heillað mig sem hrífandi vitnisburður um mannlíf í baráttu
eru bréf Vincents van Gogh. Hann átti við margvíslegar raunir að stríða, og
heilsan var sem hálmstrá. Sultur og fátækt hrjáðu hann þar sem hann var að
mála í Suður-Frakklandi og skrifaði Theo bróður sínum um líf sitt hvem
dag. Bréfin frá þessu tímabili (áður en hin hræðilegu ár sjúkdómsins
hófust) markast af snilligáfu og miklum kærleika til litanna og formanna
og þeirrar tjáningar sálarinnar sem hann sá í andlitum sem hann málaði,
einnig í andliti portkonunnar. Það er heiður hugur og fíngerð gleði í bréfum
hans frá þessu tímaskeiði. Þau lýsa líka mikilli þjáningu. En þrátt fyrir allt
er hamingja í þeim, — milli línanna, ef svo mætti segja.
13 Mbl. 17. aprfl 1988, bls. 36n (Inger Anna Aikman).
167