Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 38
Þórir Kr. Þórðarson
En sólin skín í Gamla kirkjugarðinum klukkan tíu, og daggarregnið
vætir, sum árin. Þögn. Og lúðrarsveitin spilar. Það er mjög þýðingarmikið.
Sólin, regnið, tónamir. Og þögnin. Þá veit ég að ísland er til.
En er Guð til?
Mjólkurstöðin er „til.“ Hún er inn við Laugarveg (nú flutt, raunar, sem
sýnir að málið er snúið) og hver sem vill getur farið þangað og skoðað
hana. Þá vitum við líka hvar hún er. En hvar er Guð? Guð er alls staðar,
segja menn þegar þeir vilja rugla okkur í ríminu. Þetta hljómar betur í
fomum íslenskum fræðum, af því að það er svo fagurt: Guð er allur í öllum
stöðum senn. Og á einum stað segir (á 12. öld):
í öllum stöðum er Guð allur sagður vera, því að hann er jafnmáttugur í öllum
stöðum. . . Allur segist hann vera í öllum stöðum, því að hann stýrir öllu jafnt á
hverri tíð. í engum stað segist hann vera, því að hann er ólíkamlegur, og má eigi
líkamlegur staður halda á Guði, en hann heldur saman öllum hlutum, og lifum vér í
honum og erum.4
Ekki hef ég svarað Óla ennþá. Og það hafa heldur ekki gert þeir
Wittgenstein og Kiing. Það er vegna þess að við getum ekki sagt hvað Guð
er. Við getum upplifað það. Og það gerir Óli.
Guð ER. Það getum við fundið, skynjað, í tónum sálmsins, í innlifun
bænarinnar, í störfum handarinnar sem gróðursetur, byggir upp, líknar. En
við getum ekki ályktað það. Rökfræði og náttúruvísindi geta ekki sagt
hvort hann er, tæknin getur ekki vísað veginn. Aðeins með því að vera
getum við séð að Guð er. Allt sem er getur því aðeins verið, að það gerist
partur af verun alls, sem er Guð. Hann er verun alls sem er.
Þessa sýn eða vitund geta menn nefnt mýtu, þ.e. ljóðræna og
músíkalska skynjun og tjáningu raunveruleikans. Og vissulega er hún
hvorki byggð á rökfræði né tækni. En hún á sér rök. Það eru rökin „innan
hringsins,“ innra samhengi og innri samsvörun allra hugtaka og tákna
innan hrings þeirrar lífsvitundar og raunveruleikaskynjunar sem myndar
4 Þrjár þýðingar lœrðar frá miðöldum: Elucidarius, Um kostu og löstu, Um festarfé
sálarinnar. Gunnar Ágúst Harðarson bjó til prentunar. Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, 1989, bls. 47. (Textinn er ofurlítið einfaldaður og styttur á tveimur
stöðum. Þýðingin er frá ofanverðri 12. öld).
36