Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 168
Þórir Kr. Þórðarson
Andstæða lífs er „dauðinn.“ Það orðtákn er samheiti um allt það sem
deprar lífið, sljóvgar það og slævir eins og öll mæða, sorg, áhyggja og
óþol. Angurljóðin í Saltaranum eru byggð á þessari andstæðu. Kunnast
þeirra er bænin sem Jesús fór með á krossinum, 22. sálmurinn.
Upphafsorðanna einna er getið í guðspjöllum, en vafalaust hefur hann lesið
bænina alla. Þar er annars vegar hrópað í angist: Guð minn, Guð minn, hví
hefur þú yfirgefið mig? En hins vegar játað af gleði: Þú hefur bænheyrt
mig, ég vil kunngjöra bræðrum mínum nafn þitt. Hið klassíska dæmi um
þessa afstöðu er að finna í sálminum hjá Habakkuk:
Þótt fíkjutréð blómgist ekki
og víntrén beri engan ávöxt,
þótt gróði olívutrésins bregðist
og akurlöndin gefi enga fæðu,
þótt sauðféð hverfi úr réttinni
og engin naut verði eftir í nautahúsunum,
þá skal ég þó gleðjast í Drottni,
fagna yfír Guði hjálpræðis míns (3.17-19).
Annað dæmi þessarar sömu afstöðu er að finna í sögu íslensku þjóðarinnar
á hörmungatímum, eins og Jón Helgason prófessor lýsir í kvæðinu /
Ámasafni. Menn héldu voninni, þ.e. trúnni, þótt björgina þryti:
Las ég þar sálma og lofsöngva þjóðar í nauðum,
lífsvonin eina var samtvinnuð krossinum rauðum,
yfírtak langt bak við ömurleik hungurs og sorgar
ómuðu sætlega strengleikar himneskrar borgar.
Annað dæmi, nýtískulegra, sá ég í grein eftir ítalska ritstjórann Arrigo Levi
um það leyti sem olíukreppan skall á og olli efnahagshruni og peningaleysi
í Norður-Evrópu. Hann talaði um vel skiljanleg áhyggjuefni sem hrjáðu
norður-evrópska og ameríska forstjóra og verkalýðsleiðtoga við þessar
hremmingar, en sagði þessa atburði hafa haft fremur lítil áhrif á geð manna
á Ítalíu, „þvf’, sagði hann, „hér á landi höfum við á tilfinningunni að lífið
snúist um eitthvað annað."
— Þessi ummæli gefa okkur kannski ekkert svar, en þau vekja til
umhugsunar um það, hvað hamingja sé.
Allt tal um hamingjuna er óraunhæft ef það miðar ekki við staðreyndir
lífsins. Það eru einmitt tvö höfuðeinkenni lífsskoðunar Gamla testa-
mentisins, að hún er jákvæð gagnvart lífinu og menningunni og að hún er
raunsæ og breiðir ekki yfir raunveruleikann í mannlegu lífi, ekki yfir
166