Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 212
Þórir Kr. Þórðarson
ræðu, atvinnudeildin skyldi vera „vísindaleg vinnustofnun, ætluð til að
bæta framleiðslu og afkomu landsmanna.“6
Við vígslu atvinnudeildarhússins mælti Alexander Jóhannesson þessi
orð:
Með þessari stofnun tel ég að stigið sé stærsta sporið í sögu Háskólans frá því hann
var stofnaður. Það er í fullu samræmi við hlutverk hans að hann nú snýr sér að
atvinnulífi þjóðarinnar. Háskólinn vill stuðla að því að taka virkan þátt í baráttu
þjóðarinnar fyrir efnalegri velgengni hennar, en vísindaleg þekking og vísindaleg
reynsla er grundvöllur allrar velgengni, andlegrar og efnalegrar.
Alexander var áhugasamur um hag stúdentanna. Það var hans verk að
„svifta upp“ Nýja stúdentagarðinum, eins og nú er sagt. Hann vildi efla
íþróttir, og sem kennari var hann „áhugasamur, vekjandi og lifandi.“ Það er
af nógu að taka. Byggingar kennarabústaða við Aragötu og Oddagötu á
fyrstu árunum eftir stríð voru mögulegar vegna hagkvæmra lánveitinga
undir forystu hans, sem síðar lögðust af í upphaflegum mæli.
VII
Æviágrip7
Alexander Jóhannesson fæddist á Gili í Sauðárhreppi í Skagafjarðarsýslu,
15. júlí fyrir hundrað árum. Foreldrar hans voru Jóhannes Davíð Ólafsson
sýslumaður Skagfirðinga (d. 1897, 42ja ára að aldri) og kona hans Margrét
Guðmundsdóttir.
Föðurafí Alexanders og Jón Sigurðsson forseti voru bræðrasynir. Séra
Matthías Jochumsson sem var mágur Jóhannesar, föður Alexanders, orti
um Alexander ungan dreng.
Móður hans, Margréti Guðmundsdóttur, er lýst sem gáfaðri fróðleiks-
konu og kjarkmanneskju, eins og sýndi sig er hún missti mann sinn frá
6 Guðni Jónsson, Saga Háskóla íslands. Yfirlit um hálfrar aldar starf. Rvík 1961,
bls. 198.
7 Hér styðst ég mjög við frábæra grein Halldórs Halldórssonar, „Alexander
Jóhannesson. Háskólamaðurinn.“ Andvari. Nýr flokkur, XI (1969), bls. 4-38.
Einnig við Lögfræðingatal Agnars Kl. Jónssonar og Prestatal og prófasta séra
Sveins Níelssonar.
210