Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 95
Sagnaritun og söguskýring meðal Hebrea
stjömumar og himinhnettimir berjast. Og þegar Jósúa hrópaði: „Sól statt
þú kyrr í Gíbeon,“ stóð sólin kyrr og tunglið. Frásögnin er ekki á sviði hins
„raunverulega.“ Hún gerist ekki við neonljós tækniveraldar heldur við
dumbað hálfrökkur dulúðugra sakramenta og reykelsisilm. Þannig er
frásögn oft ætlað að tjá þá vitund, að baki skynjaðs vemleika sé önnur
veröld, þar sem guðlegir kraftar búa. Kannski er sú veröld hin eina raun-
vemlega. En henni er lýst í frásagnarstíl ljóðs og leiklistar eða drama.
IX
Nú líður senn að lokum míns afmælda tíma. Og hefur mér vart gefist tími
til að fjalla um höfuðefni mitt, sem átti að vera hinn devteronómski
sagnaritari á 6. öld f.Kr. Við sitt stóra verk notaði hann eldri heimildir, t.d.
í Samúelsbókum, en einnig þá frásögn sem við höfum nú rætt. Frásögur
þær er hann ritstýrir verða honum efniviður til samfelldrar skýringar á
sögunni, en hún er sú að líf samkvæmt guðslögum leiði til farsældar, en
trúrof til hörmunga. Sannar hann mál sitt með lýsingunum á hinum tveim
herleiðingum, herleiðingu norðurríkisins ísraels, á 8. öld f.Kr. og
suðurríkisins, Júda, á 6. öld f.Kr., og hruni atvinnuvega, guðsdýrkunar og
pólitísks lífs. Lærdóm vill hann draga af sögunni, (1) að gæði landsins séu
guðsgjafir, (2) að eðli farsæls lífs í landi sé skuldbinding við eilíf lög og
ábyrgð gagnvart náunganum og eilífum lífsgildum, guðdóminum sjáfum,
er skipað hefur rétti og friði og (3) að yfir þeim hvíli blessun og farsæld
sem lögin halda, en hinum bannfæring og bölvun um aldur sem gegn
réttinum rísa. Þetta er í stuttu máli boðskapur 5. Mósebókar, og
sagnaritarinn ókunni sannar kenninguna með því að rekja söguna.
Hér fer því tvennt saman: Annars vegar varðveisla merkra sögulegra
heimilda, sem ella hefðu glatast, t.d. heimild í síðari hluta Jósúabókar, í
Samúels- og Konungabókum, er veita mikilsverða vitneskju séu þær rétt
notaðar, og hins vegar blasir við okkur voldug söguleg rannsókn
sagnaritarans sem leiðir í ljós hvað af því hlýst þegar friðurinn er rofinn og
lögin í sundur slitin, söguskýring sem leiða vill í ljós undirstöður að
sjálfstæði þjóðar sem glataði sjálfræði sínu en vann það aftur með því að
byggja að nýju á fomum grunni.
93