Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 156
Þórir Kr. Þórðarson
En eitthvað annað bjó undir en að koma Jónasi í gott skap, og sýnir það
að kímni er einn af eiginleikum Almættisins. Varla hefur rísínusrunninn
tekið sér stöðu á leiksviði frásögunnar er ný persóna birtist: Drottinn
„útnefnir (mana) orm, sem nú stígur fram á sviðið og gjörbreytir atburða-
rásinni. Hann stingur undrahvönnina sem veitt hafði Jónasi skjól fyrir
brennheitum geislum hádegissólarinnar þar á eyðimörkinni, og jafnskjótt
visnar tréð. Vesalings Jónas! Þar sem hann sat í hreysi sínu var hann nú
sviptur þessum svalandi skugga, og hefur þá geðið að daprast á ný.
En ekki fær lesandinn lengi að brosa út í annað munnvikið af þessum
spaugilegu óförum Jónasar, því nú færist alvara í leikinn. Kímnin snýst í
alvöru áminningarinnar. Drottinn er að kenna Jónasi lexíu og kennslu-
aðferðin er afdráttarlaus. Drottinn „útnefnir" (aftur notuð sama sögnin) nýja
persónu til sögunnar: hinn brennheita eyðimerkurvind (sirocco nefnist hann
á vorum dögum á tungum Evrópumanna og gerir mönnum lífíð leitt), og
þessi heiti vindur, hlaðinn sandkornum af eyðimörkinni, færir Jónasi
sólsting, svo að hann verður máttvana. Og þá stynur hann upp sömu
setningunni sem fór um varir hans um borð í Tarsis-skipinu og hann hafði
nýsagt: „Ég vil heldur deyja en lifa.“ Hér virðast örlög Jónasar ráðin.
En sögunni er ekki lokið. Það á eftir að koma í ljós að það sem á undan
er gengið hafði allt annan tilgang en þann að Jónasi yrði að ósk sinni. Nú
tekur Guð nefnilega til máls:
Þá sagði Guð við Jónas:
Hyggur þú að þú reiðist með réttu vegna rísínusrunnans?
Hann svaraði:
Ég geri rétt er ég reiðist til dauða.
Og þá loks birtist lokasvar bókarinnar, guðmælið sem er hið eiginlega
spámannsorð hennar. Það er að vísu ekkert svar, gátan er ekki leyst og
endanleg örlög Jónasar eru ekki greind. í tvíræðni lokasvarsins birtist
skýrum stöfum eigind þessarar bókar: kímnin sem lætur lesandanum það
eftir að ráða í eyðumar. Það hljómar svo og er niðurlag bókarinnar:
Þú kennir í brjósti um rísínusrunnann, sem þú hefur ekki haft erfiði af né alið upp,
— sem óx á einni nótt, — en ég á ekki að kenna í brjósti um Níníve, hina miklu
borg, þar sem eru meira en hundrað og tuttugu þúsund manns, sem þekkja ekki
hægri hönd frá vinstri, og fjöldi dýra.
154