Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 155
Glettni sem gríma raunveruleikans
Ó, Drottinn! Var það ekki einmitt þetta sem ég sagði áður en ég fór að heiman! Það
er vegna þessa sem ég í fyrstunni vildi flýja til Tarsis ... Því að ég vissi að þú ert
líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gœskuríkur og fyrirgefur hið illa.
Hér býður Jónas sjálfu almættinu byrginn. Hann lýsir afdráttarlausri
andstyggð sinni á þessari frumtjáningu trúar Gamla testamentisins, svo að
jafnvel jaðrar við guðlast og færist óhugnaður yfir frásögnina. Jónas er í
ystu neyð staddur. Og hann veit það jafnvel og Job að enginn getur deilt við
sjálfan Guð. Hann sér að lífi hans er lokið, því lífi sem hann hafði lifað í
rökhyggjunni kaldri, sem byggir á lokuðu kenningakerfi en er ekki opin
fyrir miskunn þar sem ella væri dómur og þeirri ást sem gengur þvert á
ætlanir manna.
En hér, á þessum eina stað í allri bókinni, rís Jónas hátt. Hann tekur
afleiðingum vantrúar sinnar sem hann hafði haldið vera trú:
Drottinn, taktu líf mitt, því ég vil heldur deyja en lifa!
Hér er ekki háð (írónía), eins og margir ritskýrendur ætla, hér er birt
harmræn mynd af neyð Jónasar. En jafnframt kemur höfundur í veg fyrir að
örvænting grípi lesandann með því að leiða fram andstæðu örvilnunar,
kímnina (eins og Mozart sem var aldrei taumlaus í gleðinni né örvita í,
sorginni), en slfk kímni er eigind bókarinnar og verkfæri höfundar til þess
að láta gleðileikinn og harmleikinn mætast í lokin og leiða fram vonina.
Guð glettist við Jónas
Er höfundur bókarinnar hefur látið lesendur skyggnast ofan í hyldýpi ystu
myrkra mannlegrar neyðar, þar sem Jónas afneitar trúnni og óskar sér
dauða, er frásögninni lyft í nýja tóntegund. — En gætum fyrst að baksviði
næstu viðburða.
Jónas er frávita eftir þessa orðræðu. Hann staulast út úr hinni miklu
borg og skjögrar út á bersvæði. Brennheit sólarsvækjan gerir honum ómótt,
og hann tínir saman sprek í ofurlítið hreysi. Þar býr hann um sig í
forsælunni, hjamar ofurlítið við og bíður þess nú (með svolítilli óþreyju)
hvort muni nú ekki eftir allt saman rætast það sem hann sagði fyrir.
Sem hann sat þarna í hrófatildri sínu leit Guð niður af himnum og
(kannski með kímileitu brosi) lét hann undrahvönn vaxa á svipstundu sem
skyggði rækilega á Jónas, svo nú sat hann í skuggasælum lundi. Léttist þá
skap hans og hann varð hinn ánægðasti með tilveruna.
153