Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1994, Blaðsíða 87
Sagnaritun og söguskýring meðal Hebrea
lok. En úr brunarústum hins gamla var reist ný bygging á gömlum grunni,
Gyðingdómur. Upp frá þessu tölum við um Gyðinga fremur en Hebrea.
Endurreisnin var fyrst og fremst fólgin í því að menn leituðu að
undirstöðum fyrra þjóðarlífs og fundu þær í lögum og siðum og bók-
menntum trúarinnar. Frá öðru sjónarmiði skoðað getum við sagt að menn
leituðu að vilja Guðs og fundu hann að nýju. Nýtt upphaf þjóðarsögunnar
hófst.
Þættir endurreisnarstarfsins voru margir, en einn snarasti þáttur þess var
ný sagnaritun.
Eins og einatt áður varð hið mikla áfall og hremming þjóðarsögunnar
til þess að menn lituðust um, horfðu um öxl, köfuðu í djúp trúararfsins.
Enn var gömlum hefðum safnað, enn voru þær túlkaðar með nútíðina að
leiðarljósi, enn var sagan skýrð og túlkuð. Söguskýringin var liður í leit að
sannleikanum sem þjóðin skyldi byggja á. Afrakstur þess starfs var það
sem við nefnum devteronómsku söguritin.
Sá sem ritstýrði þessu stóra verki er óþekktur. Eins og höfundur annars
snilldarverks, Njálu, svo er hann og nafnlaus og ókunnur. Ef til vill var hér
ekki aðeins um einn sagnameistara að ræða heldur „skóla,“ skrifaraskóla
eða „gildi“ fræðimanna og presta. En meistari hefur verið hér að verki.
Hér er sagan rakin, hún er rannsökuð og skýrð: Orsök ófaranna, er
norðurríkið og síðan suðurríkið urðu kúgurum heimsvelda að bráð, var
trúrof manna. Menn höfðu rofið sáttargerðina milli Guðs og manna, menn
höfðu brigðað sættir og sáttargjörð, slitið líftaugina milli eilífra gilda og
mannlegs lífs. Af þeim sökum höfðu ósköpin dunið yfir, þessi var niður-
staðan.
í þessu söguriti var orsaka sögunnar leitað, 100 árum á undan Heró-
dotosi.
IV
Ekki vinnst tími til þess að gera grein fyrir hinum fjölbreyttu hefðum sem
sagnaritarinn ókunni hefur notað, svo sem Samúelsbókum, en í þeim eru
sjálfstæð verk, svo sem Hirðsaga Davíðs, og sjáfstæð heimild um hina
heilögu sáttmálsörk.
85