Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 18
18 Henry Alexander Henrysson ræðir við Mikael M. Karlsson
Okkur vantar leikreglustjórnarskrá sem tryggir lýðræði. Eitt það helsta er að
má út atvinnupólitík. Það er ekki nægjanlegt skilyrði en örugglega nauðsynlegt.
Stjórnkerfið má að öðru leyti vera eins.
En hafa atvinnustjórnmálamenn ekki staðið sig ágætlega? Það hefur til dæmis verið
býsna friðsamlegt í Evrópu undanfarið ef maður horfir til sögunnar.
Tja, konungar eru atvinnupólitíkusar. Stalín var atvinnustjórnmálamaður. Lýðræði
er fyrst og fremst trygging allra gegn rándýrum, innlendum jafnt sem erlendum.
Þeir sem standa á bakvið elítur haga sér alltaf eins og rándýr.
Ég er sáttur ef fólk sameinast um eitthvað sjálft; án þess að vera sagt að gera
það. Það er bara ein leið til að framkvæma réttlætið og það er ef allir taka þátt.
Við þurfum að skilgreina grundvallarréttindi í stjórnarskránni. Við þurfum að
koma saman og segja að við séum til í að búa saman og að þetta séu leikreglurnar.
Og Íslendingar hafa, ennþá að minnsta kosti, nægilega mikla réttlætiskennd til
að sameinast um eitthvað sem vit er í. Þannig er það ekki alls staðar; fólk hefur
almennt ekki sérstaklega þroskaða réttlætiskennd í Bandaríkjunum svo dæmi sé
tekið. Þar er mörgum, of mörgum, skítsama um réttlæti.
Þú segir að við höfum enn nægilega réttlætiskennd hérna. Þessi réttlætiskennd, er hún
tengd þessu sem þú kallaðir mömmuvit?
Já, eða ömmuvit kannski!
En hver er heimspekin í þessu? Hverju bætir hún við réttlætiskenndina?
Það er ekki mikil heimspeki í þessu. Ég er bara að tala um heilbrigða skynsemi.
Heimspeki og vísindi eru tilraun til að teygja út svið heilbrigðrar skynsemi. Sið-
fræði Aristótelesar er svona vit. Segir hann ekki að þeir sem séu vel upp aldir skilji
það sem hann er að segja? Siðfræði Aristótelesar hafði engin áhrif á Heinrich
Himmler geri ég ráð fyrir. Það sem ég á við með þessu er að Íslendingar eru
yfirleitt vel siðaðir. Ég er ekki að segja að þeir hegði sér alltaf vel, en forsendurnar
eru til staðar. Stjórnmálin gleyma þessu. Það verður að gera ráð fyrir, og það er
hægt hérna á Íslandi, að fólk hafi siðvit til að bera. Heimspekin í þessu er hverf-
andi.
En erum við ekki að verða eins og Bandaríkjamenn, mér finnst þú gefa í skyn að
siðvitið sé ekki of áberandi þar?
Ég er ekki viss. Ég man vel eftir því hvernig þetta var þegar ég kom hingað.
Mannlífið var á öðrum forsendum. Vissulega hefur það versnað og auðvitað var
ekki allt í lagi; fólk lét til dæmis eins og misþyrming barna væri ekki til hérna.
En þrátt fyrir það, hér er fólk ekki með minnimáttarkennd þar sem það getur átt
von á því að annað fólk tali ekki við það eins og manneskju. Þetta samfélag hérna
sem ég valdi að tilheyra er eins and-elítískt og það getur verið. Og ég held að það
skipti máli til dæmis að hér hefur bara hver sitt nafn, við látum herra og doktor
yfirleitt vera. Hver og einn einstaklingur á rétt á sér. Þetta er ekki einu sinni svona
í Svíþjóð! Ég er ekki að ýkja, auðvitað er ekki allt bara í lagi á Íslandi, en það er