Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 120
120 Guðmundur Björn Þorbjörnsson
flokkast undir síðari skrif Kierkegaards og einkennist af átakanlegum útskýring-
um á þeim erfiðleikum sem felast í því að verða kristinn einstaklingur. Það er síður
en svo auðvelt verkefni, og þótt verkið snúi ekki beinlínis að hugmyndinni um að
verða sjálf, sem Kierkegaard þróaði fyrr á rithöfundarferli sínum, segir dæmisaga
þessi okkur tvennt. Einstaklingurinn býr yfir viðleitni til að breyta því ástandi
sem hann er í. Hann finnur að hann er ekki heill og vantar eitthvað, hann er ekki
bei-sich-selbst svo notað sé orðalag Hegels. En að sama skapi er verkefnið að verða
kristinn fjarri því að vera auðvelt, rétt eins og verkefnið að verða sjálf.
Lykilinn að því hvað felst í því að verða sjálf má finna í fyrsta rithöfundarverki
Kierkegaards, Enten/Eller, en þar lýsir hann tveimur tilvistarsviðum mannsins,
hinu fagurfræðilega og hinu siðferðislega.17 Spurningunni um mikilvægi þess að
einstaklingurinn taki ábyrga afstöðu til tilverunnar er varpað fram í verkinu, en
fyrri hluti þess útskýrir tilvist innan hins fagurfræðilega tilvistarsviðs og sá síðari
fjallar um hið siðferðislega. Sá sem lifir á fagurfræðilega sviðinu, fagurkerinn, hef-
ur vissulega valið því hann velur tilgangsleysið. Kjarninn í verkinu er þó gagnrýnin
sem andstæðingur fagurkerans, Vilhjálmur dómari, setur fram í síðari hlutanum.
Þar er áréttað að hið siðferðislega val sé alltaf sterkara en hið fagurfræðilega. Á
siðferðislega sviðinu sýnir einstaklingurinn ábyrgð og tekur ígrundaða afstöðu til
veruleikans og umhverfis síns. Með því að velja sinnuleysi og elta duttlunga sína
mistekst fagurkeranum að verða sjálf, og tekur hvorki afstöðu til eins né neins.
Með því að velja siðferðislega lífið, að giftast, sýna ábyrgð, breyta rétt o.s.frv., vel-
ur einstaklingurinn sjálfan sig og öðlast þannig merkingarbæra tilvist.18 Edward
Mooney hefur bent á að sjálfsvalið sé í raun stefnumótun einstaklingsins og í henni
leggi hann sig fram í baráttunni gegn hinni grunnhyggnu tilveru fagurfræðilega
tilvistarsviðsins.19 Lykillinn að því að stíga út úr hinni fagurfræðilegu tilvist felst
í því að einstaklingurinn öðlast eiginlega sjálfsvitund, sækist eftir sjálfsþekkingu
og kafar þannig djúpt inn í sjálfan sig og uppgötvar hver hann er.20 Mikilvægi
þess að taka ákvörðun er hér yfir og allt um kring. Sá sem tekur skrefið yfir á sið-
ferðis lega sviðið þarf að byggja ákvörðun sína á rökum og skynsemi, og því velur
hann að verða sjálf. Hafi einstaklingnum tekist þetta sér hann að sjálfsvalið hefur
fært honum raunverulega tilvist.21 Í Nútímanum eru samtímamenn Kierkegaards í
samskonar sjálfsmyndarkreppu og fagurkerinn, en þó á öðrum forsendum. Öllum
mistekst þeim þó að leysa verkefnið að verða sjálf. Fagurkeranum mistekst vegna
þess að hann velur merkingarleysið meðvitað, en samtímamenn Kierkegaards eru
enn háðari ytri aðstæðum, eins og vikið verður að í næsta hluta. Í Enten/Eller tek-
ur Kierkegaard þó skýrt fram að siðferðislega sviðið sé ekki æðsta tilvistarsviðið,
annað og meira er til þar sem einstaklingurinn nær æðstu mögulegu tilvist. Það
17 Kierkegaard hafði áður skilað inn kandídatsritgerð sinni, Om Begrebet Ironi, sem hefur í seinni tíð
verið flokkað sem hans fyrsta verk, sjá Kierkegaard 1989.
18 Kierkegaard 1971: 218.
19 Mooney 1995: 7.
20 Kierkegaard 1971: 251–259.
21 Sama rit: 220.