Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 51
Andleg velferð mannkyns 51
Í einhverjum skilningi hljóta þeir að vita af honum, úr því þeir óttast mögu-
leikann. Þeir vita mætavel að villutrúin felst í því að afneita tilvist Guðs, svo við
höldum okkur við dæmi Mills, en þora ekki að hugsa frjálslega t.d. um dýrin
eða mannssálina vegna þess að þeir óttast að niðurstöður þeirra „kynnu að stríða
gegn trú eða siðferði [admit of being considered irreligious or immoral]“ (80; CW
18: 242). Frumtextinn er að því leyti hjálplegri hér en íslenska þýðingin að hann
dregur fram óvissuna sem hugsandi menn er búa við svo kæfandi aðstæður standa
frammi fyrir. Þeir geta aldrei verið vissir um hvað aðrir kunni að álíta trúleysi eða
siðleysi. Óvissan er hluti af skoðanakúguninni. Óttinn getur lamað allt hugarstarf
manna og gert útaf við siðferðilegt hugrekki þeirra („[…] entire moral courage
of the human mind […]“) (CW 18: 242). Þetta er ein ástæða þess að Mill telur
sérhverja bannfæringu svo skaðlega fyrir andlegt líf mannsins sem raun ber vitni.
Sú hugsun verður síðar kjarninn í greiningu Orwells á alræðisstefnum tuttug-
ustu aldar. „Jafnvel ein bannhelgi“, skrifar Orwell í greininni „Dragbítur bók-
menntanna“, „getur haft alltumlykjandi lamandi áhrif á hugann, því sú hætta er
alltaf fyrir hendi að einhver hugsun sem er frjálslega fylgt eftir geti leitt til hinnar
forboðnu hugsunar.“52
Áður en lengra er haldið er rétt að draga stuttlega saman helstu niðurstöður um
andlega velferð. Fern rök Mills fyrir hugsunarfrelsi og málfrelsi gefa vísbendingar
um hvaða skilning hann leggur í andlega velferð og skort á slíkri velferð. Þeir sem
reyna að móta skoðanir fyrir aðra án þess að leyfa þeim að kynna sér gagnrökin,
þeir sem útiloka átök andstæðra skoðana, þeir sem aðeins þekkja sína eigin hlið á
hverju deilumáli – og þekkja hana þar af leiðandi illa – þeir sem ekki tileinka sér
sínar eigin skoðanir og kenningar, grafa undan andlegri velferð sinni og annarra.
Að þessu leyti er gagnrýnin hugsun í skilningi Mills forsenda andlegrar velferð-
ar. Tvennt skiptir höfuðmáli fyrir hugmynd Mills um gagnrýna hugsun. Annars
vegar er það krafan um að kynna sér skoðanir og sjónarmið sem eru andstæð
manns eigin. Mill rökstyður t.d. hina sláandi fullyrðingu sína um að „níutíu og
níu af hverjum hundrað svonefndra menntamanna“ (85) þekki ekki eigin skoðanir
á eftirfarandi veg:
Niðurstöður þeirra kunna að vera réttar – en það er ekki þeim að þakka.
Þeir hafa aldrei sett sig í þeirra spor, sem líta málin öðrum augum, eða
íhugað, hvað slíkir menn hefðu fram að færa. Af því leiðir, að í eiginleg-
asta skilningi þekkja þeir ekki þá kenningu, sem þeir fylgja. (85)
Slíkir menn geta engu að síður leitt „reiprennandi rök að máli sínu“ (85). Mennt-
un er því engin trygging fyrir því að menn hugsi gagnrýnið í skilningi Mills. Til
þess þarf raunveruleg átök andstæðra skoðana. Hitt atriðið sem skiptir höfuð máli
er, eins og við sáum, tiltekin afstaða til sannleikans. Hún er sú að ekkert annað
en sannleikurinn eða sannleiksástin eigi að ráða við skoðanamyndun. Þar megi
hvorki hagsmunir, stjórnmál, siðferði né trú ráða för. Ég er ekki frá því að sam-
tímamenn Mills hafi séð betur en nútímamenn hve róttæk þessi krafa Mills er í
52 Orwell 2010: 187.