Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 121
Samfélagsrýni og gamlar hættur 121
svið er hið trúarlega, sem hann vinnur með í seinni ritum, m.a. Frygt og Bæven og
Stadier paa Livets vej.22
Í Begrebet Angest, sem Kierkegaard skrifar ári síðar en Enten/Eller, fæst hann
við verufræðilega útskýringu á samsetningu sjálfsins, sem hann telur samsett úr
líkama og sál, en einstaklingurinn er samruni (d. synthese) þessara tveggja þátta,
sem ákvarðast í andanum. Verkefnið er áfram að verða sjálf, en til þess þarf andinn
að fá að vinna sitt verk í manneskjunni. Mistakist það, nær hann ekki að verða
sjálf og þá hefur framtíðin enga merkingu fyrir honum og hann upplifir angist.
Andleysi er ein birtingarmynd þeirrar angistar sem einstaklingurinn upplifir þeg-
ar andinn nær ekki að ákvarða sjálfið.23 Til að glöggva sig á þessari flóknu útlistun
Kierkegaards er ágætt að hafa til hliðsjónar dæmi sem hann tekur af svoköll-
uðum „kristnum heiðingjum“. Síðar á ferli sínum átti hann eftir að kalla venjulega
danska borgara þessu nafni, en í Begrebet Angest eru orðin höfð um einstaklinga
sem lifa í kristnu samfélagi en eru fullir doða og sinnuleysi og átta sig ekki á því
mikilvæga verkefni sem felst í að gangast kristninni á hönd og verða þannig sjálf.
Þeim mistekst að ljá lífi sínu merkingu. Í slíku tilfelli er angistin yfir og allt um
kring, enda getur einstaklingurinn ekki séð hvert markmið hlutanna er.24 Í Nú-
tímanum lýsir Kierkegaard sams konar veruleika. Einstaklingnum mistekst að
ákvarða sitt eigið líf, taka afstöðu og gera eitthvað úr því. Mennirnir eru latir, og
þeim rennur ekki blóðið til skyldunnar, því skyldan er jú engin. Því þráir fólk í
raun að verða ekkert, að hverfa í fjöldann og verða að almenningi. Viljinn til að
vera hluti af óhlutbundinni heild og kannast ekki við verkefni sitt verður alger.25
Almenningur og jöfnun fjölmiðla
Í Nútímanum lýsir Kierkegaard stöðu einstaklings sem, ólíkt fagurkeranum, er
fórnarlamb samfélags sem hefur leitt hann inn í hugmyndafræðilegt tómarúm.
Í stað þess að tilheyra sjálfum sér, Guði eða ástvinum sínum, sækist einstakling-
urinn eftir því að hverfa í fjöldann og lækka sjálfan sig í tign.26 Sá tíðarandi sem
Kierkegaard lýsir einkennist af vanmætti einstaklingsins til að skara fram úr, sem
er einmitt ein leiðin til ákvarða sjálfan sig og finna sér fótfestu. Í fornöld hafi
einstaklingnum verið leyfilegt að skara fram úr og feta ekki sömu troðnu slóð
og allir hinir. Í nútímanum þurfi hins vegar ákveðinn fjölda einstaklinga til að
ákvarða hver sé hin rétta skoðun, en í þess háttar umhverfi er verkefnið að verða
sjálf nær ómögulegt. Hér er Kierkegaard að kynna til sögunnar hugtakið jöfnun,
sem leikur lykilhlutverk í samanburði þessarar umfjöllunar á tíðaranda þeirrar
aldar sem Kierkegaard lýsir og tíðarandanum í dæmigerðu vestrænu samfélagi á
22 Sjá Kierkegaard 1988 og Kierkegaard 2000. Kierkegaard tók sjálfur skýrt fram í dagbókum sínum
að Enten/Eller er ekki ætlað að útskýra veruleika trúarlega tilvistarsviðsins, sjá Hannay 2003: 90.
Í lokakafla Enten/Eller er sveitaprestur látinn færa rök fyrir því að til sé annað svið sem sé æðra
bæði því fagurfræðilega og því siðferðislega, sjá Kierkegaard 1972: 341–356.
23 Kierkgaard 1980: 41–43.
24 Sama rit: 94–96.
25 Kierkegaard 1978: 94.
26 Sama rit: 85.