Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 54
54 Róbert H. Haraldsson
kvenna (og karla) sem orðið hefðu fyrir kynferðislegri misnotkun í æsku – 60%
að mati margra ráðgjafa (e. counselors)56 og meðferðaraðila – hefðu engar minn-
ingar um misnotkunina. Talið var að tala slíkra fórnarlamba skipti milljónum í
Bandaríkjunum einum.57 Markmiðið var að hjálpa slíkum einstaklingum að „rifja
upp“ æskuáföllin, horfast í augu við meinta ofbeldismenn, beina reiðinni að þeim
og kæra þá þar sem því varð við komið. Úr varð flóðalda ásakana sem margar end-
uðu fyrir dómstólum. Biblía hreyfingarinnar var bók Ellen Bass og Lauru Davis,
The Courage to Heal: A Guide For Women Survivors Of Child Sexual Abuse (1988),
en hún hefur notið mikilla vinsælda víða um heim til þessa dags, m.a. á Íslandi.58
Þeir fræðimenn sem fjallað hafa á gagrýninn hátt um þetta sérstæða mál, og ég
styðst m.a. við hér, eru sálfræðingurinn Elizabeth Loftus, sérfræðingur í minnis-
rannsóknum, og félagssálfræðingurinn Richard Ofshe. Loftus hefur m.a. gefið
út bókina The Myth of Repressed Memory: False Memories and Allegations of Sexual
Abuse (1994) ásamt Katherine Ketcham, en Ofshe er ásamt Ethan Watters höf-
undur Making Monsters: False Memories, Psychotherapy, and Sexual Hysteria (1994).
Fjölmörg önnur rit mætti nefna í þessu samhengi en ég læta nægja að minnast
á bók Meredith Maran My Lie. A True Story of a False Memory (2010) en Maran
ásakaði föður sinn um kynferðislega misnotkun á grundvelli bældra eða endur-
heimtra „minninga“ en dró ásakanirnar síðar til baka.59
Síðara dæmið er um femínisma í bandarískum háskólum. Gagnrýnendurnir
sem ég styðst við færa rök fyrir því að femínismi hafi þróast yfir í andstæðu sína
með tilkomu og vexti kvennafræða (e. women’s studies). Fremstar í flokki gagn-
rýnenda hér eru bókmenntafræðingurinn Daphne Patai, vísindaheimspeking-
urinn Noretta Koertge og heimspekingurinn Christina Hoff Sommers. Patai og
Koertge eru höfundar bókarinnar Professing Feminism: Education and Indoctrina-
tion in Women’s Studies (1994)60 en hún er byggð á eigin reynslu höfunda, viðtölum
við þrjátíu konur sem höfðu verið eða voru kennarar í kvennafræðum en líka
nemendur og starfsfólk í stjórnsýslu, og greiningu á útgefnum ritum kvenna-
fræðinga og spjallrásum þeirra. Patai hefur einnig sett gagnrýni sína fram í What
Price Utopia? Essays on Ideological Policing, Feminism, and Academic Affairs (2008)
sem fjallar um tilraunir róttækra femínista og menningarfræðinga til að takmarka
málfrelsi í háskólum. Sommers er m.a. höfundur bókanna Who Stole Feminism?
How Women Have Betrayed Women (1994) og The War Against Boys: How Misguided
Feminism is Harming Our Young Men (2000). Engin þessara kvenna hafnar fem-
ínisma sem slíkum. Allar telja þær sig starfa í anda femínisma. „Ráðleggja ekki
56 Bass og Davis (2002) nota orðið „ráðgjafi“ (e. counselor) yfir þá sem unnu að uppgreftri bældra
minninga. Enga sérstaka menntun eða þjálfun virðist hafa þurft til að verða ráðgjafi. Bass var
ljóðskáld og Davis þátttastjórnandi í útvarpi þegar þær sömdu bók sína.
57 Sjá t.d. Fredrickson 1992: 15, 53.
58 Bæði fylgjendur og gagnrýnendur vísa til þessarar bókar sem biblíu hreyfingarinnar en nefna
mætti mikinn fjölda annarra bóka. Sjá Loftus og Ketcham 1994: 270–283. Guðrún Ebba Ólafs-
dóttir studdist við þessa bók í uppgjöri sínu. Sjá Elín Hirst 2011: 175, 178.
59 Mikael M. Karlsson (1995) tók þátt í þessari umræðu á sínum tíma með grein um bældar minn-
ingar, kynferðislega misnotkun og fyrningarfrest.
60 Upphaflegur undirtitill var Cautionary Tales from the Strange World of Women’s Studies. Útgáfan frá
2003 er aukin og endurbætt.