Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 227
Skiptaréttlæti 227
hvers sem maður á, eða einhvers sem maður getur leigt sér eða fengið lánað. Geta
fólks til að ferðast frá Íslandi til Danmerkur er dæmi um hið síðastnefnda – fólk
getur ferðast frá Íslandi til Danmerkur með því að kaupa sér sæti í flugvél. Geta
hreyfihamlaðrar manneskju til að fara frá einu herbergi til annars kann að byggj-
ast á aðgangi hennar að þjónustu. Og geta þess sem á orðið megnið af fyrirtækjum
í landinu til að misnota markaðsráðandi stöðu sína til að kúga aðra, er geta í krafti
eigna.
Getudreifingu í tilteknu samfélagi má lýsa á svipaðan hátt og eignadreifingu
samfélags var lýst í mynd 1 að framan. Geta manneskju veltur fyrst og fremst á
tveimur þáttum. Annars vegar á þeim gæðum sem hún ræður yfir og hins vegar á
möguleikum hennar á að umbreyta þessum gæðum í raunveruleg lífsgæði. Ef allir
hafa nokkurn veginn sömu möguleika á að umbreyta þeim gæðum sem til skipta
eru í raunverulega getu (í skilningi Sens) verður myndin af getudreifingu tiltekins
samfélags svipuð myndinni sem lýsir eignadreifingu samfélagsins. Sér í lagi munu
eignadreifingarferillinn og það sem við gætum kallað getudreifingarferillinn hafa
sömu lögun – ef eignadreifingarferillinn er kúptur þá verður getudreifingarferill-
inn það líka, og ef sá fyrri er íhvolfur þá verður sá síðari það líka.
Staðreyndin er sú að fólk er ólíkt hvert öðru, bæði að upplagi og í félagslegu til-
liti, og því getur getudreifing í tilteknu samfélagi á tilteknum tíma hæglega verið
verulega frábrugðin eignadreifingunni á sama tíma. Ef tiltekinn hópur fólks (t.d.
fatlaðir, fólk af erlendum uppruna eða ungar mæður) á verulega erfitt með að um-
breyta hefðbundnum gæðum í raunverulega getu, þá kann að vera að eignadreif-
ingarferillinn sé kúptur en getudreifingarferillinn íhvolfur. Sömu sögu er að segja
ef sum svið samfélagsins (t.d. stjórnmál) eru lokuð fyrir öðrum en þeim sem eiga
verulegar eignir.
Almennt má raunar álykta að ef samfélag er óhóflega efnishyggjumiðað – þ.e.
ef það þarf að komast yfir háan eignaþröskuld til að verða fullgildur þátttakandi
í samfélaginu – þá leiði kúptur eignadreifingarferill ekki endilega til kúpts getu-
dreifingarferils heldur sé allt eins líklegt að getudreifingarferillinn verði íhvolfur
þar sem hinir allra tekjuhæstu einoki tiltekin svið samfélagsins í krafti eigin eigna.
Þá er hætt við að mikilvæg svið samfélagsins verði lokuð fyrir þeim sem ekki eiga
verulega miklar eignir, jafnvel þótt enginn sé undir fátæktarmörkum.
Gæði og geta
Gagnrýni Sens á kenningu Rawls um réttlæti kann að virðast of einföld til að
Rawls hafi ekki svar við henni. Í Justice as Fairness rekur Rawls í nokkuð löngu
máli hvernig hann hafi raunar brugðist við gagnrýni Sens löngu áður en Sen setti
hana fram. Ég ætla ekki að fara í saumana á rökræðum þeirra tveggja, en þó verð-
ur ekki skilið við Rawls öðru vísi en að nefna það sem segja má að sé aðalatriðið í
vörn hans, nefnilega samspil réttinda annars vegar og efnislegra gæða hins vegar.
Kenning Rawls er tveggja þátta, hún varðar bæði réttindi og skiptingu gæða,
og er því hvorki hreinræktuð lögmálskenning um réttlæti né leikslokakenning