Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 164
164 Simone de Beauvoir
skiptavinirnir myndu glaðir neyta vörunnar án þess að borga og einhverjir myndu
gjarnan vilja nota konuna til þess að fullnægja sadískum þörfum sínum. Í Madrid
fyrir nokkrum árum léku ungir fasistar og iðjuleysingjar sér að því að henda
vændiskonum í fljótið á köldum nóttum. Í Frakklandi fóru vínhreifir stúdentar
stundum með konur upp í sveit og skildu þær þar eftir allsnaktar um miðja nótt.
Til að afla tekna og forðast misþyrmingar þarf vændiskonan á karlmanni að halda.
Hann veitir henni líka andlegan stuðning: „Þegar maður er ein á báti vinnur
maður ekki eins vel, mann langar ekki að vinna verkið, maður rétt drattast áfram“,
segja sumar. Oft ber hún ástarhug til hans; það er af ást sem hún tekur upp starfið
eða réttlætir það. Í umhverfi hennar eru yfirburðir karla yfir konunni miklir. Þessi
aðstöðumunur kyndir undir blindri trú á ást, sem skýrir ástríðufulla sjálfsfórn
sumra vændiskvenna. Í ofbeldishegðun karlanna sjá þær tákn um karlmennsku
þeirra og gefa sig þeim á vald og verða þeim mun auðsveipari. Með honum kynn-
ast þær afbrýðisemi og kvalræði, en einnig gleðistundum hinnar ástföngnu.
Engu að síður hafa þær stundum andúð á honum og bera kala til hans. Það er
af ótta, af því hann heldur þeim uppi, sem þær eru áfram undir verndarvæng hans,
eins og við sáum í tilfelli Marie-Thérèse. Þær leita þá oft huggunar hjá „ástvini“10
sem þær velja meðal viðskiptavina sinna. Marie-Thérèse skrifar:
Fyrir utan sinn Julot áttu allar konur sér ástvini, ég líka. Það var mjög
myndarlegur ungur sjóliði. Þrátt fyrir að hann væri góður í rúminu gat
ég ekki fengið fullnægingu með honum. En það var mikil vinátta milli
okkar. Oft kom hann upp til mín án þess að við hefðum samfarir, við
töluðum bara, hann sagði að ég ætti að koma mér út úr þessu, að ég ætti
ekki heima þarna.
Þær leita einnig huggunar hjá konum. Stór hluti vændiskvenna er samkynhneigð-
ur. Við höfum séð að oft má rekja upphafið að vændisstarfi til ástarævintýris með
konu og að margar fóru að búa með ástkonu. Samkvæmt Önnu Rueling eru um
20% vændiskvenna í Þýskalandi samkynhneigðar. Faivre bendir á að í fangels-
inu skiptast ungir kvenkynsfangar á klámfengnum bréfum með ástríðufullum
áherslum og þær enda bréfin á orðunum „Sameinaðar að eilífu“. Þessi bréf eru
keimlík þeim sem skólastúlkur skrifa sín á milli og kynda undir „báli“ í hjörtum
þeirra. Þær eru ekki eins meðvitaðar og eru feimnari. Þær fyrrnefndu fara tilfinn-
ingalega alla leið, bæði með orðum sínum og gjörðum. Marie-Thérèse var kynnt
fyrir nautnum ástarlífsins af konu og við sjáum hversu stórt hlutverk „vinkonan“
leikur í lífi hennar sem mótvægi við fyrirlitlegan viðskiptavininn eða drottnunar-
gjarnan verndarann:
Julot kom með stelpu, vinnukonugrey sem átti ekki einu sinni skó á fæt-
urna á sér. Við keyptum allt á hana á flóamarkaðnum og svo kom hún
með mér í vinnuna. Hún var voðalega blíð og þar sem hún kunni þar að
10 [Í frumtexta: „béguin“. Þarna er átt við manneskju sem einhver verður skotin í eða kunnað er vel
við, án þess að um eiginlega ást sé að ræða (sbr. „crush“ á ensku).]