Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 226
226 Ólafur Páll Jónsson
[…] manneskja með fötlun getur ráðið yfir meiri frumgæðum (í formi
tekna, auðs, frelsis og þar fram eftir götunum) en haft minni getu (vegna
fötlunar innar). […] manneskja getur haft hærri tekjur og fengið meiri
næringu, en búið við minna frelsi til að lifa vel nærðu lífi vegna meiri
líkamsvirkni, eða vegna þess að hún er útsettari fyrir sníkjudýrum, eða
vegna líkamsstærðar eða einfaldlega vegna þess að hún er ólétt. […]
Hvorki frumgæði, né efni eða úrræði almennt, eru til marks um þá getu
sem manneskja býr yfir.9
Vandinn hér kristallast í því sem Sen kallar uppá ensku „information base“ og ég
mun einfaldlega kalla „gagnagrunn“, þótt það orð sé líka notað um annars konar
fyrirbæri.
Sérhver kenning um pólitískt réttlæti byggir á einhverskonar hugmynd um
hvaða gögn skipta máli fyrir mat á því hvort samfélag sé réttlátt. Slík gögn eru
gagnagrunnur kenningarinnar. En hvað er þessi gagnagrunnur? Gagnagrunn-
urinn gæti verið safn upplýsinga um hvað hver einstaklingur á eða hefur aðgang
að. Frjálshyggjumaður eins og Robert Nozick vill að vísu vita meira, nefnilega
sögulegar staðreyndir um það hvernig hver einstaklingur komst yfir þær eignir
sem hann telst eiga. Jafnaðarmaðurinn vill vita hvort munurinn á þeim sem eiga
minnst og hinum sem eiga mest sé ásættanlegur, eða hvort munurinn á þeim 10%
sem hafa minnst og hinum 10% sem hafa mest sé ásættanlegur, eða eitthvað í þá
veru.
Rawls flækir þetta mál töluvert, m.a. vegna þess að hann leggur í senn áherslu á
réttindi og jöfnuð – ójöfn skipting frumgæða er því aðeins réttmæt að hún komi
þeim til góða sem minnst hafa. Rawls þarf því á talsvert flóknum gagnagrunni
að halda til að geta skorið úr um hvort tiltekið samfélag sé réttlátt, eða hvort það
hafi þróast í átt til aukins réttlætis, eða hvort það sé réttlátara en annað samfélag,
o.s.frv. Gagnrýni Sens byggist á því að þau gögn sem duga Rawls til að svara
sínum spurningum duga ekki til að skera úr um að hvaða marki meðlimir tiltekins
samfélags eru frjálsir til að kjósa sér líf sem þeir hafa ástæðu til að meta sem gott
líf.10 Rawls telur reyndar að hann geti svarað gagnrýni Sens á fullnægjandi hátt,
eins og ég mun víkja að undir lok greinarinnar.
Samkvæmt hugmyndum Sens er ekki nóg að gagnagrunnur sem kenning um
réttlæti byggir á tilgreini einstaklingana og þau gæði sem þeir ráða yfir, og það er
heldur ekki nóg að bæta við sögulegum gögnum um eignatilfærslu í samfélaginu.
Samkvæmt Sen þarf gagnagrunnur, sem kenning um réttlæti byggir á, að tilgreina
einstaklinga og margvíslega getu (e. capabilities) sem þeir hafa. Sen vill reyndar
ekki segja nákvæmlega til um hvaða getu þurfi að tilgreina, vegna þess að það sé
breytilegt frá einu samfélagi til annars.
Geta er ekki eitthvað sem maður á eða ræður yfir – geta er eitthvað sem maður
hefur. Stundum hefur maður getu af eigin rammleik, t.d. getu til að fara frá einu
herbergi til annars, en stundum hefur maður getu í krafti stuðnings eða ein-
9 Sen 1992: 82.
10 Sama rit: 81.