Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 39
Andleg velferð mannkyns 39
256–258).7 Hafi hann valið hvert orð bókarinnar af kostgæfni má ætla að það eigi
alveg sérstaklega við um sjálfa meginniðurstöðuna. Í öðru lagi fellur orðalagið
vel að umræðu annars kaflans. Það kallast á við annað orðalag sem Mill notar
víða í kaflanum, svo sem „andlegt frelsi“ („mental freedom“) (CW 18: 241, 243,
246), „andlegur þroski“ („mental development“) (CW 18: 242), „andlegur styrkur“
(„mental stature“) (CW 18: 243), „andlegur þrældómur“ („mental slavery“) (CW
18: 243), „andlegt fjör“ („mental activity“) (CW 18: 243), „andleg kjör“ („mental
position“) (CW 18: 245), „andleg menntun“ („mental culture“) (CW 18: 246) og
„andlegir yfirburðir“ („mental superiority“) (CW 18: 246). Í þriðja lagi er ljóst að ef
við fellum þetta orðalag burt verðum við að finna nýtt orðalag til að lýsa megin-
niðurstöðu Mills í kaflanum. Hvað er það þá sem hugsunarfrelsi og málfrelsi eru
ófrávíkjanlega skilyrði fyrir? Svarið við þeirri spurningu er á reiki í skrifum um
Frelsið sem veldur ýmsum ruglingi og skekkir heildarmynd okkar af mál frelsis-
vörn Mills.
Önnur ástæða þess að túlkendur Mills láta hjá líða að vísa til andlegrar velferðar
er að þeir einblína á ofangreindar fjórar ástæður en þar kemur orðalagið ekki fyrir
eins og við sáum. Í yfirlitsritum um Mill og jafnvel nákvæmum fræðigreinum láta
höfundar oft nægja að nefna ein eða fleiri af þessum rökum Mills.8 Sú nálgun
fangar oft mikilvæga þætti í málflutningi Mills9 en hefur þó þann augljósa galla
að hinu skilyrta ástandi (andlegri velferð) er ekki lýst. Raunar er einnig undir
hælinn lagt hvort sjálfri meginniðurstöðunni er haldið til haga og á það ekki bara
við um orðin „andleg velferð“ heldur líka orðið „mannkyn“. Afar sjaldgæft er að
túlkendur Mills geri eitthvað með þá staðreynd að meginniðurstaðan fjallar um
tiltekið ástand mannkyns sem Mill kennir við andlega velferð. Líkt og hér að ofan
vaknar því aftur sú spurning hverju hugsunarfrelsi og málfrelsi eru ófrávíkjanleg
skilyrði fyrir. Þeir sem einblína á ein eða fleiri af ofangreindum fernum rökum
nefna oft ekki að hugsunarfrelsi og málfrelsi séu ófrávíkjanleg skilyrði nokkurs
skapaða hlutar. Vera má að það sé vegna þess að í stuttri lýsingu Mills á ástæð-
unum fjórum í lok kaflans virðist hann aðeins einu sinni víkja að nauðsynlegu
skilyrði. Það er í öðrum lið þar sem Mill staðhæfir að „aðrar hliðar sannleikans
[komist] einungis [only] á framfæri við átök andstæðra skoðana“ (108, leturbreyt-
ing mín; CW 18: 258). Ýjað er að ófrávíkjanlegu skilyrði í lið þrjú en þar er þó ekki
rætt um alla menn, einungis sagt um flesta menn að þeir muni taka að aðhyllast
skoðun „sem hégilju og missa sjónar á skynsamlegum forsendum hennar, nema
hún mæti virkri og öflugri andstöðu“ (109). Fari menn þá leið að horfa framhjá
meginniðurstöðunni og einblína á undirliðina fjóra í stuttri samantekt Mills get-
ur hvorutveggja gerst að andleg velferð komi hvergi við sögu og hugsunin um að
hugsunarfrelsi og málfrelsi séu ófrávíkjanleg skilyrði einhvers annars en sannrar
skoðunar getur fengið sömu örlög. Auk þess vill þá fara lítið fyrir umræðu um
tiltekið ástand mannkyns. Felli menn orðalagið „andleg velferð mannkyns“ niður
7 Mill leggur áherslu á að Frelsið hafi jafnframt verið samvinnuverkefni hans og konu hans, Harriet
Taylor (33).
8 Sjá t.d. Miller 2010: 115–116; Gray 1983: 104. Sjá einnig Brink 2008: 44–45.
9 Sérstaklega, auðvitað, ef öllum þáttunum eru gerð nokkur skil líkt og C. L. Ten gerir í afar vand-
aðri bók sinni, Mill on Liberty.