Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 176
176 Dan Zahavi
til.4 Það eina sem er í rauninni til eru tiltekin kerfi til upplýsingavinnslu sem starfa
að líkanasmíð sjálfsins, og við ættum að forðast þá gryfju að rugla saman líkani
og raunveruleika.5
Höfuðmarkmið Albahari er einnig að færa rök fyrir því að sjálfið sé blekking.
Hvaða hugmynd um sjálfið vill hún bera brigður á? Hún gengur út frá eftirfar-
andi skilgreiningu: Sjálfið ætti að skilja sem heildstæða, verufræðilega aðskilda
og meðvitaða sjálfsveru sem leitar hamingjunnar, er sleitulaust að verki, verður
fyrir upplifunum, hugsar hugsanir og er gerandi athafna sinna. Meðal þess sem
er áhugavert við þessa tilraun Albahari til skilgreiningar er að margir fylgjendur
stefnunnar um að ekkert sjálf sé til hafa hafnað því að meðvitundin búi yfir ein-
ingu, samfellu og óbreytanleika, og síðan lagt það að hafna þessum eiginleikum
að jöfnu við að neita raunveruleika sjálfsins, en Albahari telur aftur á móti þessi
þrjú atriði vera raunverulega eiginleika meðvitundar þó að hún líti engu að síður
á sjálfið sem blekkingu.6
Til að skýra betur hvers vegna hún telur svo vera skulum við huga að greinar-
mun sem hún gerir milli sjónarhornseignarhalds og persónulegs eignarhalds. Pers-
ónulegt eignarhald snýst um að skilja sjálfan sig sem persónulegan eiganda upp-
lifunar, athafnar, hugsunar o.s.frv., þ.e. að líta á þessi atriði annað hvort sem mín
eða skilja þau sem hluta af mér (og þetta getur þá gerst hvort heldur á yfirvegaðan
hátt eða án allrar yfirvegunar). Aftur á móti er það að eiga eitthvað með tilliti til
sjónarhorns einfaldlega í því fólgið að tiltekin upplifun, hugsun eða athöfn birt-
ist sjálfsverunni sem á umrædda upplifun, hugsun eða athöfn á afdráttarlausan
hátt. Þannig verður ástæða þess að segja má að ég eigi mínar eigin hugsanir eða
skynjanir með tilliti til sjónarhorns – svo tekið sé eilítið ankannalega til orða – sú
að þær birtast mér á tiltekinn hátt sem er frábrugðinn því hvernig þær geta birst
öllum öðrum. Þegar viðföng utan sjálfsverunnar eru annars vegar er það sem átt
er með tilliti til sjónarhorns ekki viðfangið sjálft heldur sá sérstaki háttur sem
viðfangið birtist sjálfsverunni undir.7
Albahari heldur því fram að náin tengsl séu milli þess að hafa tilfinningu fyrir
persónulegu eignarhaldi og þess að hafa tilfinningu fyrir sjálfi. Þegar sjálfsveran
greinir tiltekin atriði sem sjálfa sig eða sem hluta af sjálfri sér hefur hún vissa
tilfinningu fyrir persónulegu eignarhaldi á umræddum atriðum. En þetta sama
greiningarferli vekur upp tilfinningu fyrir greinarmuni á sjálfi og hinum. Það
býr til áþreifanleg mörk á milli þess sem tilheyrir sjálfinu og þess sem gerir það
ekki. Þannig kemur sjálfið fram sem heildstæð, verufræðilega aðskilin eining sem
stendur andspænis öðrum hlutum.8 Þannig verður sjálfsveran, skilin sem einbert
sjónarhorn, að persónugerðri einingu af toga verundar.9 Með öðrum orðum lítur
Albahari svo á að það að vera sjálf sé annað og meira en að vera sjónarhorn og búa
yfir sjónarhornseignarhaldi.
4 Sama rit: 370, 385, 390.
5 Sama stað.
6 Albahari 2006: 3.
7 Sama rit: 53.
8 Sama rit: 73, 90.
9 Sama rit: 94.