Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 95
Heimspeki Lotzes og tengsl hennar við fyrri og síðari heimspeki 95
hefur þó aðeins glæðst á síðustu áratugum. Þannig er að finna tvær ítarlegar ný-
legar yfirlitsgreinar um hann á vefsíðum,5 og allmargar greinar í heimspekilegum
fagtímaritum hafa verið helgaðar hugmyndum hans. Ástæðurnar fyrir því að
áhugi á heimspeki Lotzes dalaði mjög eftir um 1920 eru eflaust margar. Má nefna
að hughyggjuþátturinn í henni var að mestu leyti leiddur af þýsku hughyggjunni,
einkum Hegel, og það sem lifað hefur í þeirri heimspeki hefur einkum verið á
sviði lögspeki, stjórnmálaheimspeki og söguspeki, sviðum sem Lotze fjallaði til-
tölulega lítið um. Þær frumlegu kenningar sem Lotze setti fram og voru flestar
fyrirrennarar síðari kenninga hafa síðan runnið inn í þessar síðari kenningar í
þróaðri mynd án þess að athygli hafi verið vakin á því og því ekki verið áhugi fyrir
því að skoða kenningar Lotzes sérstaklega. Ýmsar hugmyndir Lotzes eiga þó að
mínu mati erindi við nútímaheimspekinga; má þar t.d. nefna kenninguna um
miðaða hughyggju og um gildingu.6
Hér verður leitast við að gera í stuttu máli almenna grein fyrir nokkrum helstu
atriðum í heimspeki Lotzes og tengslum hans við síðari tíma heimspekinga.
Einkum verður lögð áhersla á kenningar hans í frumspeki, þekkingarfræði og
rökfræði (í víðum skilningi). Hann setti einnig fram merkar kenningar í siðfræði
og fagurfræði, sem ekki verður gerð grein fyrir. Því miður er ekki rými hér til að
gera grein fyrir nema nokkrum helstu atriðum í hugmyndum þessa heimspek-
ings, en heimspeki hans er flókin og samtvinnuð heimspeki helstu hugsuða nítj-
ándu aldar á Vesturlöndum.7
Lotze fæddist 21. maí 1817 í bænum Bautzen í Austur-Saxlandi, ekki langt frá
pólsku landamærunum, sonur herlæknis. Hann nam læknisfræði og heimspeki
við háskólann í Leipzig og tók minna doktorspróf (þ. Promotion) í þessum grein-
um 1838 og síðan meira doktorspróf (þ. Habilitation) í læknisfræði 1839 og í heim-
speki 1840. Árið 1842 var honum veitt prófessorsstaða í heimspeki við háskólann
í Göttingen, sem hann tók við af Johann Friedrich Herbart (1776–1841), en áður
hafði Lotze gegnt stöðu í stuttan tíma sem dósent í heimspeki og læknisfræði við
háskólann í Leipzig. Árið 1881 varð Lotze prófessor í heimspeki við háskólann í
Berlín, en hann lést aðeins þremur mánuðum síðar, 1. júlí 1881. Helstu áhrifavaldar
á heimspeki Lotzes voru, auk klassískra heimspekinga eins og Platons, Leibniz
og Kants og þýsku hughyggjumannanna Fichtes, Schellings og Hegels, kenn-
arar hans Christian Hermann Weisse (1801–1866) og sálfræðingurinn Gustav
Theodor Fechner (1801–1887). Einnig varð Lotze fyrir áhrifum frá Herbart og
Friedrich Adolf Trendelenburg (1802–1872), einum frægasta gagnrýnanda hug-
hyggju Hegels.
5 Sjá Milkov 2010 og Sullivan 2010.
6 Kenning Lotzes var oft kölluð „gildingarkenning“ (þ. Geltungslehre).
7 Ábendingar um áhrif Lotzes á síðari heimspekinga er einkum að finna í neðanmálsgreinum.