Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 186
186 Dan Zahavi
sem við (og aðrir) segjum um okkur sjálf. Sagan getur hangið misvel saman og
sama gildir um sjálfsmynd okkar. Þannig er frásagnarsjálfið smíð sem aldrei er
lokið og er í stöðugri endurskoðun. Það hengir sig á „frásagnarsnaga“ sem eru
menningarlega afstæðir og það hverfist um tiltekið mengi markmiða, hugsjóna
og vona.37 Það er sjálfsmyndarsmíð sem hefst í frumbernsku og heldur áfram
alla ævi, og felur í sér flókin félagsleg samskipti. Það sem maður er veltur á þeim
gildum, hugsjónum og stefnumiðum sem maður kemur sér upp; það snýst um það
sem er manni mikilvægt og merkingarbært og þessi atriði eru auðvitað skilyrt af
því samfélagi sem maður er hluti af. Fyrir vikið (og eins og oft hefur verið haldið
fram) getur maður því ekki verið sjálf upp á eigin spýtur heldur aðeins í félagi við
aðra, sem hluti af málsamfélagi.
Að mínu mati væri misráðið að stilla þessum tveimur hugmyndum upp þannig
að önnur útiloki hina, eins og stundum hefur verið gert, sér í lagi af hálfu fylgis-
manna frásagnarhugmyndarinnar um sjálfið. Að mínu mati bæta hugmyndirnar
tvær hvor aðra upp, báðar fanga eitthvað þungvægt og þýðingarmikið. En þó að í
því felist vissulega skref í rétta átt að gera sér grein fyrir því að hugmyndirnar eru
samrýmanlegar en ekki ósamrýmanlegar standa enn eftir mörg úrlausnarefni sem
lúta að eðli þeirra og tengslum og kalla á frekari skýringar.38
Tökum sjálft orðið „útvíkkað sjálf“ sem dæmi. Þegar þetta orð er notað er gefið
í skyn að hugmyndin um lágmarkssjálf feli ekki í sér að sjálfið sé útvíkkað. En
er það svo í reynd? Á lágmarkssjálfið sér aðeins tilvist í hinum hreina nú-punkti
augnabliksins? Er það í rauninni á rökum reist að telja lágmarkssjálfið skorta
hvers kyns tímalega „þykkt“? Ég held ekki. Þessu er raunar þveröfugt farið, því
eina ítarlegustu fyrirbærafræðilegu greinargerð fyrir lágmarkssjálfi sem til er má
einmitt finna í greiningu Husserls á formgerð innri tímavitundar. Greiningu hans
á samspilinu milli framleitni, frumbirtingar og eftirheldni [protention, primal im-
pression and retention] á einmitt að skilja sem viðleitni til að afla betri skilnings á
sambandinu milli sjálfsupplifunar og tímanleika. Önnur spurning sem hér kemur
til álita snýst um það hvort umræðunni um lágmarkssjálfið sem formgerð eða
eigin leika upplifunarinnar sé ætlað að bera með sér að hugmyndin sem hér er í
húfi sé svo rýr í roðinu að við sitjum að endingu uppi með ólíkamlegt sjálf, þ.e.
hugmynd sem lætur líkamleikann lönd og leið. Þessu myndi ég líka svara neit-
andi. Að mínu mati er rétta leiðin til að hugsa um lágmarkssjálf sem viðfang
upplifunar í því fólgin að hugsa um það sem fyrstupersónusjónarhorn sem bundið
er líkama. En að sjálfsögðu mætti þá spyrja hvort lágmarkssjálfið sé þá í rauninni
réttnefnt lágmarks-sjálf.
Hvað hugmyndina um frásagnarsjálf áhrærir þá tengjast henni ýmis úrlausn-
arefni sem erfitt reynist að kveða niður, og eitt þeirra varðar einmitt sjálfa hug-
myndina um frásögn. Ég tel óhætt að gera ráð fyrir því að enginn fylgismaður
þessarar afstöðu héldi því fram að það að vera sjálf krefjist þess að maður setji í
reynd saman sjálfsævisögu. Við þurfum að greina frásagnir sem settar eru saman
að yfirlögðu ráði frá þeim frásögnum sem einkenna líf okkar frá degi til dags.
37 Flanagan 1992: 206.
38 Sbr. einnig Zahavi 2005, 2007, 2009.