Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 210
210 Guðmundur Sæmundsson og Kristján Kristjánsson
Nú víkur sögunni frá fræðimönnum til iðkenda og athyglinni beint að tveimur
afreksiðkendum sem urðu rithöfundar. Sá fyrri er Þorgrímur Þráinsson sem var
vinsæll og frækinn knattspyrnumaður á áttunda og níunda áratug síðustu aldar
í liðinu sem sr. Friðrik stofnaði (Kf. Val) og einnig í landsliðinu. Eftir það fór
hann að skrifa unglingaíþróttabækur með beinni skírskotun til heilbrigðs lífsstíls,
trausts, heiðarleika, virðingar og varnaðarorða gegn hvers kyns notkun vímuefna.83
Fimm bóka hans má skoða sem hreinar íþróttabókmenntir – Með fiðring í tánum;
Tár bros og takkaskór; Mitt er þitt; Svalasta 7an og Okkar á milli.84 Þetta er haft eftir
Þorgrími sjálfum um tilgang bókanna:
Þorgrímur telur að íþróttaiðkun ungmenna skipti miklu máli, mun meira
máli en flestir geri sér grein fyrir. Iðkunin geti verið grunnur að glæstri
framtíð, innan vallar sem utan, og í heimi íþrótta séu sorg og gleði, von-
brigði, höfnun, sigrar og samkeppni rétt eins og í lífinu sjálfu. Harður en
heilbrigður heimur íþrótta er frábær skóli fyrir lífið seinna meir, mótlæti
er þroskandi. Heilbrigð hugsun skiptir máli og mikilvægt er að börn og
unglingar eflist við mótlæti í stað þess að brotna niður.85
Siðferðisboðskapur Þorgríms Þráinssonar er beint framhald af siðaboðskap
UMFÍ og ÍSÍ fyrstu árin og áratugina og gildismati sr. Friðriks Friðrikssonar
nema hvað varðar afrekadýrkunina. Hvað afrekin varðar er Þorgrímur meira í
ætt við íslensku fornhetjurnar og alls ekki í samhljóman við hinn gamla læri-
föður liðsins. Þetta kemur ekki á óvart þar sem Þorgrímur var þekktur fyrir mikið
keppnisskap í knattspyrnunni. Sanngjarnt er að nefna annað frávik Þorgríms frá
gömlu rómantíkinni: Hann er jafnréttissinnaður gagnvart kynjum því að stelp-
urnar í sögum hans eru dugmiklar íþróttakonur. Að vísu skrifar hann sögurnar
meira út frá sjónarhóli strákanna enda þekkir hann þann sjónarhól áreiðanlega
betur þótt hann hafi síðar tekið sér fyrir hendur að skrifa ráðleggingar til karl-
manna um hvernig þeim beri að haga sér til að gleðja eiginkonur sínar.86
Fyrir utan bækur Þorgíms Þráinssonar er ekki um margar íþróttamiðaðar bækur
fyrir unglinga eða fullorðna að ræða frá síðustu áratugum. En ef bækur og sjón-
varpsefni fyrir börn eru skoðuð má hitta fyrir annan frægan íþróttamann, Magn-
ús Scheving, sem varð Íslandsmeistari í þolfimi árið 1992, Norðurlandameistari
1994 og Evrópumeistari 1995. Hann skrifaði bækur um ævintýraheiminn Latabæ87
og framleiddi leiki, kvikmyndir og síðar teiknimyndir um þetta sköpunarverk sitt.
Aðalboðskapur þeirra er hreyfing og holl fæða. Latibær er nú frægur um allan
heim og hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir heilbrigðan boðskap sinn.
Næst er ástæða til að nefna höfund sem einnig er sprottinn úr hringiðu íþróttanna,
í þessu tilviki knattspyrnunnar, þótt hún hafi aldrei leikið knattspyrnu svo vitað
83 Hróðný Kristjánsdóttir 2008: 27, 36, 40–44.
84 Þorgrímur Þráinsson 1989, 1990, 1991, 2003, 2004.
85 Hróðný Kristjánsdóttir 2008: 45.
86 Þorgrímur Þráinsson 2007.
87 Magnús Scheving 1995.