Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 223
Skiptaréttlæti 223
Að spyrja að leikslokum eða við upphaf leiks
Ég hef nú vikið að tveimur forsendum fyrir því að réttlæti sé bæði nauðsynlegt og
mögulegt; sú fyrri er að fólk ræður yfir gæðum sem eru takmörkuð og sú seinni er
að skipting gæða breytist frá einum tíma til annars. Víkjum þá að þriðju forsend-
unni, nefnilega þeirri að þau margvíslegu gæði sem fólk sækist eftir – stundum
með ágætum árangri – eru sjaldnast gæði sem einn tiltekinn einstaklingur, eða
afmarkaður hópur einstaklinga, hefur skapað, heldur eru þau afrakstur af flókinni
samvinnu ólíkra einstaklinga. Auk þess er gæðanna gjarnan notið í samvinnu eða
samfélagi.
Þegar dreifing gæða hefur breyst þá er sú breyting ekki bara til komin vegna
þess að gæðunum hefur verið umstaflað, ef svo má segja (t.d. með skattlagningu),
heldur hafa ný gæði orðið til en önnur eyðst eða ónýst. Í fyrradag átti ég hveiti,
salt og ger, og svo átti ég brauð í gær. Og þótt ég hafi bakað brauðið sjálfur, þá er
brauðbakstur í raun víðtækt samstarfsverkefni. Ég keypti hveitið, gerið og saltið
í búð hér í bæ, vatnið sem bunaði úr krananum kom líklega upp úr jörðinni í
Heiðmörk og rafmagnið sem hitaði ofninn barst mér frá flóknu neti virkjana og
rafmagnslína, sem sumpart hafa orðið til svo þjóna mætti hagsmunum alþjóð-
legra stórfyrirtækja. Svo er það ekki bara brauðið sem er gæði, að eiga þess kost að
baka brauð er hluti af þeim gæðum sem um ræðir. Nágranni minn, sem nú vinnur
baki brotnu til að eiga fyrir afborgunum, hefur ekki tíma fyrir svona gæði og má
sætta sig við billegt verksmiðjubrauð sem hann étur á sífelldum hlaupum. Því má
reyndar bæta við að brauðið var á endanum einhverskonar félagsleg gæði því með
ilmandi brauðið á eldhúsborðinu ákvað ég að bjóða vinum í kaffi.
Þegar hugað er að dreifingu þeirra gæða sem um ræðir, þá verður ekki horft
framhjá því hvernig gæðin urðu til og þar með verður ekki horft framhjá því
að samfélagið í heild er einhvers konar samvinnuvettvangur um sköpun gæða,
dreifi ngu þeirra og afnot af þeim. Og þar með verður sjálfur aðgangurinn að sam-
félaginu sem vettvangi sköpunar, dreifingar og afnota af gæðum einnig mikils verð
gæði.
Það er meðal annars vegna þessarar þriðju staðreyndar sem John Rawls heldur
því fram að menn missi marks þegar spurt er um skiptingu gæða, eins og ég gerði
að ofan með spurningum (1), (2) og (3). Meinið er ekki að spurningarnar sem
slíkar séu ekki viðeigandi, heldur er þeirra spurt á röngu augnabliki. Rifjum sem
snöggvast upp spurningarnar þrjár:
(1) Hefur hver það sem honum ber?
(2) Er of mikill munur á þeim sem hafa minnst og hinum sem hafa
mest?
(3) Hafa þeir sem hafa minnst, of lítið?
Þessara þriggja spurninga er spurt um stöðu samfélagsins eins og hún er á til-
teknum tíma, fyrst við t1 og svo aftur við t2, og þannig er sífellt spurt við lok
hvers tímabils um hversu ásættanleg dreifing gæða í samfélaginu sé. Ef dreifingin