Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 23
Viljafrumspeki og bölhyggja Schopenhauers 23
manna og í tilhneigingu hlutanna. Hann er í hnotskurn lífskraftur án markmiðs,
hið innra gangverk alheimsins í víðasta skilningi.
Hlutgerðir viljar í átökum – nauðhyggja viljans
Það sem áður var einn og óskiptur vilji birtist okkur í margvíslegum myndum í
skynheiminum. Birtingarmynd viljans er ætíð háð aðgreiningarreglunni (prin-
cipium individuationis) sem er lögmál er gerir okkur kleift að greina einn hlut/
einstakling frá öðrum. Með aðgreiningarreglunni splundrast hin upprunalega
eining viljans og tvístrast í margar hlutgervingar á viljanum, sem formast og
sundurgreinast í heimi fyrirbæra þar sem fjórföld rót orsakalögmáls fullnægjandi
ástæðu gildir.
Aðgreiningarreglan byggir á eilífum og óbreytanlegum frummyndum Plat-
ons, en birtingarmyndir viljans eru eins konar eftirmyndir frummynda sinna og
endurtaka sig síðan í skynheiminum út í hið óendanlega. Það þýðir að heimur
hugmynda okkar er einhvers konar sýndir eða ímyndir – skynfærin blekkja okkur.
Þess vegna er ekki mögulegt að þekkja viljann í raunverulegri mynd, heldur er
hann draumkenndur, óljós og brigðull.
Heimurinn er í raun fjölbreyttar hlutgervingar viljans í endalausu og ósættan-
legu stríði, þar sem viljafyrirbærin leitast við að sölsa undir sig veruleikann. Allir
hlutir vilja eitthvað tiltekið hér og nú, sem sést best í viljanum til lífs, æxlunarhvöt
og viljanum til þess að komast af. Hlutirnir standa í innbyrðis átökum, undir-
lagðir lögmáli fullnægjandi ástæðu verðandinnar af nauðsyn: Ákveðin spenna
eða ágreiningur myndast ósjálfrátt milli hlutgerðra vilja, þar sem efri stig viljans
„gleypa“ í sig hin lægri (ófullkomnari frummyndir). Stríðið er augljósast í heimi
dýranna; mörg dýr fá næringu úr plönturíkinu og verða gjarnan bráð og æti ann-
arra. Átökin eru ekki síður grimmileg milli einstaklinga; menn berjast hvarvetna
fyrir lífi sínu og eru hvergi óhultir.
Ákveðin nauðhyggja er afleiðing viljafrumspekinnar. Samkvæmt Schopenhauer
er maðurinn ákveðin tegund eða gerð sem er meðfædd og óbreytileg, sem þýðir að
maðurinn er ófrjáls og bundinn vilja sínum. „Ég get gert það sem ég vil; ég get, ef
ég vil […].“7 Það þýðir að ég get aðeins gert það sem viljinn leyfir mér samkvæmt
lögmáli fullnægjandi ástæðu athafna og öðruvísi get ég ekki athafnað mig. Af
tilteknu tilefni leiðir aðeins eina hugsanlega athöfn, sem ákvarðast af vitrænum
persónuleika.
Öll fyrirbæri haga sér af innri nauðsyn og geta ekki verið öðruvísi en þau eru;
viljinn lendir þannig af nauðsyn í látlausu stríði við sjálfan sig. Með aðgreining-
arreglunni verður viljinn ekki aðeins ófrjáls, heldur einnig óvæginn, grimmur og
tillitslaus. Aðgreiningarreglan fangelsar þannig viljaveruna í stöðugt eigingjörn-
um athöfnum og löngunum, sem aldrei er unnt að fullnægja. Tilvistin einkennist
af ótta, óstöðugleika og spennu.
7 Schopenhauer 1999: 38.