Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 100
100 Erlendur Jónsson
um raunveruleika? Af hverju myndi sú hugsun trufla okkur? Augsýnilega
vegna þess að það blasir við að hið æðsta, hið fegursta og hið verðmætasta
er ekki bláber hugsun, heldur hlýtur að vera raunveruleiki þar sem það
hlyti í sjálfu sér að vera óþolandi að hugsa þannig um hugsjón að hún sé
hugmynd sem vissulega er sköpuð af hugsuninni þegar hún er að verki,
en hefur í raunveruleikanum enga tilvist, engin áhrif og ekkert gildi. […]
Væri hið æðsta ekki, þá væri hið æðsta ekki, og ómögulegt er að hið æðsta
af öllu hugsanlegu væri ekki.22
Verkið Mikrokosmus var ætlað almenningi, en fræðilegri útfærslu á hinum þrosk-
uðu kenningum Lotze er að finna í verkinu System der Philosophie, er átti að koma
út í þremur hlutum. Fyrsti hlutinn, Drei Bücher der Logik kom út 1874, annar hlut-
inn, Drei Bücher der Metaphysik 1879, en síðasti hlutinn, er fjalla átti um siðfræði,
fagurfræði og trúarheimspeki, kom aldrei út.
Rökfræðinni (sem stundum er kölluð „stóra“ rökfræðin) er skipt í fyrstu „bók“,
er ber titilinn „Um hugsun (hrein rökfræði)“, aðra bók, sem kölluð er „Um rann-
sóknir (hagnýtt rökfræði)“, og þá þriðju, „Um þekkingu (aðferðafræði)“. Hér er
ekki um að ræða formlega rökfræði, frekar en í „litlu“ rökfræðinni, heldur mest-
megnis heimspekilega túlkun rökfræðinnar og tengsl hennar við þekkingarfræði
og frumspeki.
Hin hreina rökfræði sjálf mun sýna og skýra, að form hugtaksins, dóms-
ins og ályktunarinnar ber að skoða sem hugræn form, sem síðan geta af
sér hinn sanna rökfræðilega skilning efnisins, ef það tekst að skipa hinu
gefna efni hugmyndanna í þau. En hinir ýmsu séreiginleikar hinna ýmsu
hluta setja þessari skipan skorður […]. Hin hagnýtta rökfræði fæst við
aðferðir rannsóknarinnar, sem yfirstíga þessar hindranir […]. Þriðji hluti
helgar sig þekkingunni, sem sagt þeirri spurningu […] að hve miklu
leyti sú hugsanaheild sem við höfum getað byggt upp með öllum tækjum
hinnar hreinu og hagnýttu rökfræði, gerir kröfu um að vera viðeigandi
þekking þess sem við höfum talið okkur geta gert ráð fyrir sem viðfangs-
efni og tilefni hugmynda okkar.23
Annar hluti rökfræðinnar er kallaður „hagnýtt rökfræði“ (þ. angewandte Logik),
en fjallar í raun um það sem nú er kallað aðferðafræði. Þriðji hluti er hins vegar
kallaður „aðferðafræði“, en fjallar í raun frekar um það sem nú á dögum er kallað
þekkingarfræði.
Meginstef „stóru“ rökfræðinnar er gagnrýni Lotzes á sálarhyggju sinna daga,24
þ.e. þá kenningu að rökfræðin fjalli um raunverulega hugsun okkar. Lotze gerir
strangan greinarmun á hugsun sem sálarathöfn annars vegar og inntaki hugsunar
hins vegar. Hið fyrrnefnda er atburður sem gerist í tíma, en inntak hugsunar ligg-
22 Lotze 1864: 557.
23 Lotze 1874: 13.
24 Sjá grein 4 hér á eftir.