Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 224
224 Ólafur Páll Jónsson
þykir ekki ásættanleg, þá kemur kannski einhver, t.d. ríkisvaldið, og skiptir sér af
henni.
John Rawls vill horfa öðruvísi á málið. Í stað þess að spyrja í lok hvers tímabils
hvernig til hafi tekist, þá vill hann spyrja í upphafi hvers tímabils um hvaða mögu-
leika einstaklingarnir eiga á að afla sér gæða og njóta þeirra, þ.e. hvaða aðkomu
borgararnir hafa að samfélaginu sem vettvangi um sköpun og dreifingu gæða, og
afnota af þeim. Rawls orðar þetta m.a. með eftirfarandi hætti þar sem hann ber
saman tvenns konar þjóðfélagsskipan, séreignarlýðræði, sem hann segir að geti
uppfyllt kröfur réttlætisins, og kapítalískt velferðarríki, sem að hans mati fellur á
réttlætisprófinu:
[…] grunnstofnanir í séreignarlýðræði miða að því að dreifa eignarhaldi
á auði og fjármagni, og koma þannig í veg fyrir að fámennur hópur
stjórni hagkerfinu, og óbeint, einnig pólitísku lífi. Öfugt við þetta leyf-
ir kapítalískt velferðarríki að lítill hluti borgaranna sé nær einráður um
framleiðslutækin.
Í séreignarlýðræði er komist hjá þessu, ekki með því að dreifa tekjum
upp á nýtt til þeirra sem minnst hafa við lok hvers tímabils, ef svo má
segja, heldur með því að tryggja dreift eignarhald á framleiðslutækjum og
mann auði (þ.e. menntun og færni) við upphaf hvers tímabils, í samræmi
við kröfuna um jöfn sanngjörn tækifæri. Ætlunin er ekki einfaldlega að
hjálpa þeim sem verða undir vegna slysa eða ógæfu (þótt það verði að
gera) heldur að gæta þess að allir séu í stöðu til að ráða sínum eigin mál-
um á viðunandi félagslegum og efnahagslegum jafnræðisgrundvelli.3
Í stað þess að horfa aftur til þess hvernig gæðin hafa í raun skipst, þá leggur Rawls
áherslu á að grunnstofnanir samfélagsins séu með þeim hætti að öllum séu sköp-
uð sanngjörn tækifæri til að skapa, afla og njóta gæða. Áherslan er því ekki á hvað
fólk hefur heldur hvað fólk getur lagt til, hvers það getur aflað og hvers það á kost
á að njóta. Af þessum sökum ber ekki að líta á þau gæði sem fólk ræður yfir, hvort
heldur venjulegar eignir, menntun eða stöður, sem afrakstur heldur skiptir meira
máli að líta á þessi gæði sem fyrirheit – eða möguleg fyrirheit. Að vísu er málið ekki
alveg svona klippt og skorið.
Til að skapa fólki sanngjörn tækifæri á að afla gæða þarf fólk að hafa gæði. Þessi
efnistök Rawls ýta því ekki alveg til hliðar spurningunni um hvaða gæðum fók
ræður yfir á tilteknum tíma. Með því að horfa fram á veginn með þessum hætti
má gera greinarmun á tilteknum gæðum sem grundvalla stöðu fólks sem borgara
í mannlegu samfélagi og öðrum gæðum sem eru vissulega mikilvæg fyrir gott líf
en hafa ekki sams konar mikilvægi. Fyrri gæðin kallar Rawls frumgæði (e. prim-
ary goods).
Frumgæði eru það sem einstaklingar þarfnast og verða að hafa í ljósi
hinnar pólitísku hugmyndar um einstaklinga, sem borgara sem eru full-
3 Rawls 2001: 139.