Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 106
106 Erlendur Jónsson
Þekkingarfræði Lotzes
Í ljósi framangreindra efasemda vill Lotze leita að einhverri annarri leið til að
komast að hinsta leyndardómi eða kjarna heimsins og hann spyr sig því hvort til sé
einhvers konar grundvallarregla sem hafa megi að leiðarljósi við leitina að öruggri
þekkingu. Hann hafnar „kógítói“ Descartes með þeim rökum að það leiði ekki
til neinnar frekari þekkingar, eins og Descartes viðurkenndi reyndar sjálfur. Des-
cartes hafi því freistað þess að nota það sem leiðarljós um sannleika hugmynda,
að þær séu skýrar og augljósar. En þessi prófsteinn, segir Lotze, er gagnslaus sem
formlegt skilyrði fyrir sannleika, frekar verði að skoða raunverulegar hugsanir og
athuga hvort þær fullnægi prófsteininum. Og jafnvel þótt þessi prófsteinn kunni
að duga í stærðfræði sem Descartes stundaði með góðum árangri er hann gagns-
laus í heimspeki þar sem menn eru aldrei sammála um hvað er fullkomlega skýrt
og greinilegt.41
Ennfremur fólst sú skynsemishyggja eða rökhyggja sem oft er rakin til Des-
cartes í því að líta svo á að í hverjum mann búi einhvers konar meðfædd regla
sem felur í sér tryggingu fyrir eigin gildi, eins konar „meðfædd hugmynd (ídea)“.
Lotze segist ekki finna að hugtakinu „meðfæddur“, þar sem hann skilji það svo
að hugurinn sé þannig gerður að þegar viðeigandi reynsla veki hann til hugsana
þá hljóti þessar hugsanir að vera af ákveðnu tagi sem ákvarðast af gerð hugarins:
ef hann væri öðruvísi yrðu slíkar hugsanir ekki til eða öðruvísi.42 En nú bendir
Lotze á að orðið „ídea“ sem notað var óspart af Descartes og Locke og síðar af
raunhyggjumönnum 18. aldar eins og Hume og Berkeley, er í raun tvírætt: annars
vegar merkir það hugtak en hins vegar reglu eða eitthvað sem fullyrt er. Hugtak er
sjálfu sér nógt og fullyrðir sem slíkt ekki neitt, eins og hugtakið „hestur“. En það
eru aðeins „ídeur“ af seinna taginu sem stuðla að því að auka þekkingu okkar, og
það var þannig sem Descartes notaði þær. Hann setti fram ákveðnar grundvallar-
reglur sem hann reisti heimspeki sína á. Slíkar reglur eru, viðurkennir Lotze, í
einhverjum skilningi „meðfæddar“, en skortir samt a.m.k. að einhverju leyti þann
skýrleika og vissu sem Descartes vildi nota til marks um óyggjandi sannleika. Til
að skýra hlutverk þeirra frekar þarf að vísa til þess greinarmunar sem Kant gerir
á formi og inntaki reynslunnar. Þessar reglur eru ennfremur ekki „meðfæddar“
í þeim skilningi að þær bíði fullskapaðar í huganum þegar við fæðumst, heldur
er hugur okkar þess eðlis að þegar skyngögn berast okkur frá umheiminum þá
bregst hugurinn við þeim að hluta til með því að raða þeim saman í heild og að
hluta til með eðlisávísun.43
En segjum að ákveðnar reglur eða fullyrðingar séu „meðfæddar“ í einhverjum
skilningi. Höfum við þá einhverja tryggingu fyrir því að það sem þær segja okkur
sé satt? Lotze bendir á að um leið og við opnum fyrir þann möguleika að annars
vegar sé til hlutlægur sannleikur og hins vegar hugsun okkar um þennan veruleika
sé aldrei unnt að útiloka að veruleikinn sé, þegar öllu er á botninn hvolft, öðruvísi
41 Lotze 1874: §323.
42 Sbr. hina frægu líkingu Leibniz á mannshuganum við marmarablokk t.d. í Leibniz 1986: 45–47.
43 Lotze 1874: §324.