Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 127
Samfélagsrýni og gamlar hættur 127
sjáll í gagnrýni sinni og nefnir í þessu samhengi að í nánustu framtíð verði til
handbækur um alla skapaða hluti, og menntun muni ganga út á að læra utan að
stuttar staðhæfingar um eðli hlutanna. Krafan verður sú að einstaklingurinn geti
þulið upp hinar og þessar staðreyndir eins og prentvél, en á sama tíma er hann
algerlega gersneyddur ítarlegri þekkingu á einhverju einu.52 Yfirborðsþekkingin
er alger, sem er afleiðing þess að samfélagið krefur ekki þegna sína um að sýna
andlit sitt, ef svo má að orði komast, styðja málflutning sinn með rökum og kynna
sér innihald og inntak þess sem rætt er gaumgæfilega.
Í Óraplágunni bendir Žižek á að í dag sé einstaklingnum minna í mun að komast
að því hvað liggi að baki virkni hlutanna. Sá sem notar tölvur styðst við stafræna
vélvirkni, en virknin að baki skjásins er honum óaðgengileg og ósýnileg. Notand-
inn sýnir enga viðleitni til að skilja virkni tölvunnar, heldur tekur við hlutunum
eins og þeir birtast honum. Žižek vísar hér til þeirrar umræðu Heideggers sem
hér hefur verið reifuð að manninum sé kastað inn í heiminn.53 Einstaklingurinn
verður að læra sjálfur að rata inni í þessum heimi, en hann treystir óhjákvæmilega
þeim stofnunum sem stjórna lífi hans.54 Vegna þeirra yfirburða sem das Man hef-
ur yfir veru einstaklings, verður erfiðara og erfiðara fyrir hann að svara fyrir sig
og sýna ábyrgð. Das Man verður viðmiðunin, því það sem Heidegger ýjar hér að
er að ef das Man fær að ráða er ekki hægt skella skuldinni á neinn: „Það eru alltaf
þeir sem gerðu það.“55 Þessa hugsun útfærir Hannah Arendt, fyrrum nemandi
Heideggers, nánar í greinargerð sinni um réttarhöldin yfir nasistaforingjanum
Adolf Eichmann.56
nokkuð ljóst hver hefði skrifað bókina, og sú var raunin með mörg þeirra verka sem hann skrifaði
undir dulnefni, sjá Garff 2005: 216-217. Í verki sínu frá 1846, Afsluttende Uvidenskabelig Efterskrift,
gerir Kierkegaard grein fyrir því hvaða verk hann hafi skrifað undir dulnefni. Ástæður þess af
hverju hann hafi í raun gert það hafa Kierkegaard-fræðingar lengi deilt um án þess að hafa komist
að einni réttri niðurstöðu. Rithöfundarferli Kierkegaards er gjarnan skipt upp í svið þeirra verka
sem hann skrifaði undir dulnefni, og hinna kristnu rita sem einkenndu síðari hluta ferilsins. Hins
vegar skrifaði Kierkegaard einnig undir dulefni á síðari hluta ferils síns, þá helst undir dulnefninu
Anti-Climacus, sem er skráður fyrir Sygdommen til Døden og Indøvelse i Christendom. Fyrrnefnda
ritið verður brátt fáanlegt í íslenskri þýðingu Kristians Guttesen, undir nafninu Sóttin banvæna.
52 Kierkegaard 1978: 104.
53 Heidegger nefnir að einstaklingurinn geti ekki flúið umhverfi sitt, þar sem honum er kastað inn
í heiminn og verður hann að meta stöðu sína í heiminum út frá því, sjá Heidegger 1962: 166.
54 Žižek 2007: 312–313.
55 Heidegger 1962: 165.
56 Eichmann var dæmdur fyrir að bera ábyrgð á brottflutningi gyðinga í útrýmingarbúðir og
gettó í Austur-Evrópu, en yfir honum var réttað í Jerúsalem árið 1961. Arendt dró þá ályktun
af réttarhöldunum að sú firring frá raunveruleikanum sem Eichmann sýni sé fær um að valda
meiri skaða heldur en öll heimsins illska samanlögð, og þó að Eichmann hafi verið ábyrgur fyrir
hræðilegum hlutum, var hann aðeins venjulegur maður, hvorki djöfullegur né nokkurt skrímsli,
sjá Arendt 1994: 3–4; 288. Arendt notar hugtakið „hversdagsleiki illskunnar“ (e. banality of evil)
til að leggja áherslu á að harðstjórar eru venjulegir menn eins og ég og þú. Voðaverk þeirra eru
til sannindamerkis um hvað „venjulegt“ fólk er fært um að gera í öfgafullum kringumstæðum, sjá
Fine 2001: 157–158.