Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 198
198 Guðmundur Sæmundsson og Kristján Kristjánsson
sem snúast þar með um eitt og aðeins eitt: Að sigra. Eftirminnilegt er tilsvar
Vincents Thomas Lombardi, víðfrægs þjálfara í amerískum fótbolta: „Sigurinn er
ekki allt sem máli skiptir, hann er það eina sem skiptir máli.“10
Raunar má halda áfram þessari röksemdafærslu og nálgast enn eina aðferðina
til að skilgreina íþróttir. Þá aðferð mætti kalla ályktandi: Að skilgreina þær út
frá markmiði sínu og tilgangi fyrir einstaklinginn eða samfélagið. Íþróttir eru
kannski fyrst og fremst tæki fyrir einstaklinginn til að verða hann sjálfur, þroskast
líkamlega og (í víðtækum skilningi) siðferðilega.11 Þetta skiptir kannski mestu
þegar kemur að menntunarlegu hlutverki íþrótta, eins og það var til dæmis meðal
Forn-Grikkja. Þar skyldi kenna æskunni að sigra og bíða ósigur og jafnframt að
þekkja sjálfa sig og takmörk sín, auka siðferði hennar og þroska sálina og þar með
gera einstaklinginn að betri borgara og leiðtoga.12
Hér má segja að skilgreiningin sé farin að nálgast orðræðuskilgreiningu hug-
taksins sem nefnt er hér að framan. Þetta gamla gildishlaðna markmið á vel við
nútímann og hefur í engu tapað gildi sínu, auk þess sem það leiðir beint að því að
skoða íþróttir undir sjónarhorni siðferðis almennt og dygða sérstaklega. Arist ót-
el es færði rök fyrir því að dygð væri meðalhóf tveggja lasta eða öfga. Þannig væri
hugrekki til dæmis meðalvegur hugleysis og fífldirfsku.13 Í siðfræði Aristótelesar
liggur áherslan ekki á athöfnum manna, heldur skapgerð þeirra, ekki á því hvað
þeir gera við tilteknar aðstæður, heldur hvers konar athafnir þeir hafa tilhneigingu
til þess að velja.14 Í ljósi slíkra dygðafræða má skipta íþróttadygðum í tvennt:
1. Einstaklingsstyrkjandi dygðir (e. agent instrumental virtues) – en þar
má nefna á sviði íþrótta dygðirnar árvekni, varkárni, sjálfsstjórn, hug-
rekki, ákveðni, þrek, staðfestu, forsjálni og útsjónarsemi.
2. Hópstyrkjandi dygðir (e. group instrumental virtues) – þar sem fram
eru taldar samstarfshæfni, aðstæðubundin dómgreind og hæfni til að
fylgja öðrum og vera leiðtogi.15
Allt eru þetta dygðir sem augljóslega koma sér vel og eru mikilvægar í íþróttum.
Aðrar siðfræðikenningar en dygðafræði í anda Aristótelesar hafa einnig haft mik-
il áhrif á mat á siðferði íþrótta. Þar ber fyrst að nefna skyldusiðfræði Immanúels
Kant. Hún felst í mjög stuttu máli í því að þar er einblínt á réttmæti athafna,
skyldurækni og virðingu fyrir réttindum annarra.16 Í íþróttum kemur þetta fram í
skilyrðislausri kröfu um samstöðu, aga og hlýðni við reglur og lögmál íþróttanna.
Reyndar hefur lengi loðað við íþróttir, íþróttakennslu og þjálfun að ekkert skipti
þar eins miklu máli og agi og reglur. Hefur þetta svið mannlegra athafna þótt
standa einna næst hermennsku hvað þetta varðar.
10 Sessions 2004: 47.
11 Howe 2004: 218.
12 Reid 2009: 45–47.
13 Sachs 2006.
14 Kraut 2007; Peterfreund 1992: 29–47.
15 McNamee 2008: 60.
16 Alexander og Moore 2007; Atli Harðarson 1989: 57–71; Peterfreund 1992: 180–199.