Hugur - 01.01.2012, Blaðsíða 148
148 Elsa Haraldsdóttir
menningu, sem á sér háþroskaða frásagnarlist, leynist efniviður í lausnir
á ýmsum áhugaverðustu ráðgátum mannsandans.64
Þessi hugmynd er áhugaverð hér í ljósi þess að mögulega veitir hún innsýn í
skilyrði eða undanfara tilurðar heimspekilegrar hugsunar. Ef við yfirfærum þessa
hugmynd Páls um heimspeki í samfélaginu yfir á einstaklinginn með því að
skipta út orðinu „menning“ fyrir „manneskja“ þá hljóðar það svo: Í hverri þeirri
„manneskju“ sem á sér háþroskaða frásagnarlist, leynist efniviður í lausnir á ýms-
um áhugaverðustu ráðgátum mannsandans. Af þessu mætti þá draga þá ályktun
að „háþroskuð“ frásagnarlist sé undanfari hæfileikans til ígrundunar á ráðgátum
mannsandans, eða þess að stunda heimspeki. En hvað liggur að baki því að spyrða
saman frásagnir og heimspeki?
Það sem Páll fjallar um er viðhorf okkar til veruleikans. Með því að einblína á
frásagnarhliðina skoðum við einungis ytra borð menningarinnar, það er að segja
ártöl, atburði, ættartölur og þess háttar. Innra borð menningarinnar fjallar hins
vegar um hvað við erum, hver staða okkar í veruleikanum er og hvað við telj-
um okkur vita og skilja um heiminn.65 Hugmynd Páls um frásagnarlistina sem
undanfara heimspekilegrar hugsunar er því áhugaverð fyrir þær sakir að hún gefur
til kynna að áður en heimspekileg hugsun geti átt sér stað þurfi að vera til staðar
einhver sýn eða hugmynd um veruleikann. Það sem meira er, til staðar þarf að
vera einhver áhugi eða metnaður fyrir því að skapa sem heildstæðasta, en jafnframt
frumlega, mynd af veruleikanum. Páll segir að heimspekin þarfnist „frásagna-
hugsunarinnar“ til þess að geta þrifist „og veitt fyllri og betri skilning á heiminum
og okkar eigin veruleika“.66
Merking hugtaksins „frásagnarlist“ er því ekki það eitt að segja frá einhverju
heldur liggur það í sagnahefð þjóðarinnar og lýsir þeirri þörf að kortleggja veru-
leikann og fá sem heildstæðasta mynd af honum. En það að „segja frá“, að endur-
segja reynslu sína og upplifun, má tengja við hugmyndir um þroska barna. Þá má
ímynda sér að barnið byrji á að segja frá og lýsa atburðum áður en það tekur til
við að ígrunda þá sérstaklega með heimspekilegum hætti. Þannig mætti þá túlka
frásögn barnsins sem tilraun til þess að kortleggja veruleikann. Reynslan sýnir að
í heimspekilegri samræðu eru börn í fyrstu oftar en ekki upptekin af því að segja
frá en með tímanum fara þau meira að velta fyrir sér viðfangsefninu með heim-
spekilegum hætti og taka þannig þátt í samræðunum. En er hægt að finna dæmi
um þess háttar þróun í frásögn Brynjúlfs Jónssonar? Er hægt að finna einhver
dæmi um það hvernig hugsun hans þróast úr „frásögn“ yfir í „ígrundun“? Og ef
svo er, hvenær á það sér stað og í hvaða aðstæðum?
Engin eiginleg dæmi eru um það í frásögn Brynjúlfs að hugsun hans þróist úr
„frásögn“ yfir í „ígrundun“ eða „heimspekilega hugsun“. Hins vegar eru lýsingar
Brynjúlfs á fyrstu æviárum sínum dæmi um það að hann sé upptekin af því að
„kortleggja“ veruleikann og móta sýn sína og hugmyndir um hann. Jafnframt má
64 Páll Skúlason 1981: 27.
65 Sama rit: 9–10.
66 Sama rit: 24.